Fótbolti

Mjálmuðu hástöfum á dýraníðinginn Zouma

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kurt Zouma játaði sök í vor.
Kurt Zouma játaði sök í vor. Rasid Necati Aslim/Getty Images

Kurt Zouma, leikmaður West Ham United á Englandi, fékk óblíðar móttökur frá stuðningsmönnum Lens þegar liðin áttust við í æfingaleik í fyrradag. Sá franski var nýverið dæmdur fyrir dýraníð fyrir að sparka í köttinn sinn.

Lens og West Ham gerðu markalaust jafntefli á heimavelli fyrrnefnda liðsins í Frakklandi á laugardaginn var. Stuðningsmenn Lens létu Zouma fá það óþvegið þar sem þeir mjálmuðu hástöfum í hvert skipti sem hann snerti boltann í leiknum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Zouma er látinn heyra það á þessum nótum af stuðningsmönnum andstæðinga en myndskeið af honum að sparka í köttinn sinn fór sem eldur í sinu um alvefinn í vetur. Zouma var í kjölfarið kærður fyrir dýraníð og hann játaði sök.

Hann þurfti að sinna 180 klukkustundum af samfélagsþjónustu vegna glæps síns auk þess að greiða níu þúsund sterlingspund í sekt, um eina og hálfa milljón króna. Þá var honum bönnuð kattaeign í fimm ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×