Fótbolti

Klopp kærður af enska knattspyrnusambandinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp missti stjórn á skapi sínu þegar dómurum leiksins yfirsást frekar augljóst brot á Mohamed Salah, í sigri Liverpool á Manchester City á sunnudag.
Jürgen Klopp missti stjórn á skapi sínu þegar dómurum leiksins yfirsást frekar augljóst brot á Mohamed Salah, í sigri Liverpool á Manchester City á sunnudag. Getty/Laurence Griffiths

Enska knattspyrnusambandið hefur kært framkomu þýska knattspyrnustjórans Jürgen Klopp í garð dómara leiks Liverpool og Manchester City síðastliðinn sunnudag til aganefndar.

Klopp fékk að líta beint rautt spjald undir lok leiksins þegar Bernardo Silva virtist brjóta á Mohamed Salah. Ekkert var þó dæmt og í kjölfarið missti Klopp stjórn á skapi sínu.

Klopp lét aðstoðardómarann Gary Beswick heyra það og var í kjölfarið sendur upp í stúku af dómara leiksins, Anthony Taylor.

Þjóðverjinn baðst þó afsökunar á hegðun sinni í viðtali eftir leik og sagðist eiga rauða spjaldið skilið.

„Ég missti mig á þessu augnabliki og ég er ekki stoltur af því,“ sagði Klopp. „Ég átti rauða spjaldið skilið og hvernig ég kom fram á þessum tímapunkti var ekki rétt.“

Þrátt fyrir rauða spjaldið getur Þjóðverjinn stýrt liði sínu þegar Liverpool tekur á móti West Ham í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld. Stjórinn hefur til föstudags til að svara kæru enska knattspyrnusambandsins, en gera má ráð fyrir því að hann fái eins leiks bann fyrir framkonuna og sekt í kaupbæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×