Fótbolti

Tæknin sannar að Ronaldo snerti aldrei boltann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo var alveg viss um að hafa skorað fyrra mark Portúgal gegn Úrúgvæ en tæknin hefur nú sannað að hann snerti aldrei boltann.
Cristiano Ronaldo var alveg viss um að hafa skorað fyrra mark Portúgal gegn Úrúgvæ en tæknin hefur nú sannað að hann snerti aldrei boltann. Salih Zeki Fazlioglu/Anadolu Agency via Getty Images

Portúgalska stórstjarnan Cristiano Ronaldo fagnaði ógurlega er liðið tók 1-0 forystu gegn Úrúgvæ í leik liðanna á HM í gær. Ronaldo fullyrti að hann hafi snert boltann á leið sinni í netið eftir fyrirgjöf frá Bruno Fernandes, en tæknin hefur nú sannað að svo var ekki og það var því Bruno sem skoraði markið.

Eftir að flautað var til leiksloka þar sem Potúgal vann 2-0 sigur gegn Úrúgvæ og tryggði sér um leið sæti í 16-liða úrslitum HM hélt Ronaldo því áfram fram að fyrra mark leiksins væri hans. Fyrrverandi liðsfélagi hans hjá Manchester United, Bruno Fernandes, var sjálfur ekki viss og sagði að honum hefði fundist Ronaldo snerta boltann við fyrstu sýn.

Nú hefur íþróttavöruframleiðandinn Adidas hins vegar tekið allan vafa af þessu máli og birt gögn sem sýna að Ronaldo snerti aldrei boltann á leið sinni í netið.

„Með því að nota Connected Ball Technology í Adidas Al Rihla boltanum getum við sýnt fram á það að Cristiano Ronaldo snerti aldrei boltann á leið sinni í netið,“ stóð í yfirlýsingu Adidas um málið.

„Það mældist enginn utanaðkomandi kraftur eins og sjá má á „hjartalínuritinu“ á meðfylgjandi mynd.“

„500Hz IMU skynjarinn inni í boltanum gefur okkur mjög nákvæmar niðurstöður í greiningunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×