Fótbolti

Grátleg mistök: Veðjaði ekki á rétta argentínska landsliðið til að vinna HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Julian Alvarez og Lionel Messi fagna einu marka argentínska landsliðsins á HM.
Julian Alvarez og Lionel Messi fagna einu marka argentínska landsliðsins á HM. Getty/Richard Heathcote

Þegar þú setur pening á landslið að vinna heimsmeistaramót þá er betra að vera með á hreinu í hvaða íþrótt þú ert að veðja.

Einn seinheppinn en getspakur einstaklingur uppgötvaði það að hann hefði ruglast á íþróttum þegar hann hélt að hann væri að fá stóran vinning í jólagjöf.

Mdny, eins og hann kallar sig, setti 38 bresk pund á það að Argentína yrði heimsmeistari 21. október síðastliðinn og átti að uppskera 1064 pund eða 184 þúsund íslenskar krónur.

Þegar betur var á góð þá kom í ljós að hann veðjaði ekki á fótboltalandslið Argentínu á HM heldur rugby landsliðið Argentínu á HM í rugby 2023.

Argentínumenn eru komnir alla leið í úrslitaleik HM í fótbolta þar sem þeir mæta Frökkum og þykja sigurstranglegri.

HM í rugby fer fram í Frakklandi frá 8. september til 28. október á næsta ári. Það er ekki öll von úti með að Mdny vinni veðmálið en Argentína hefur aldrei endað ofar en þriðja sæti á HM i rugby.

Argentína komst ekki í átta liða úrslit síðasta heimsmeistaramóts sem fór fram 2019. Vann þá bara tvo af fjórum leikjum í riðlinum og sat eftir.

Fyrsti leikur argentínska landsliðsins á HM 2023 er síðan einmitt á móti Englandi. Það má búast við því að Mdny horfi á þann leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×