Fótbolti

Mættu til „ömmu“ Messi og sungu nafn hetjunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allir Argentínumenn elska Lionel Messi sem veifar hér til áhorfenda eftir sigurinn í undanúrslitunum.
Allir Argentínumenn elska Lionel Messi sem veifar hér til áhorfenda eftir sigurinn í undanúrslitunum. AP/Hassan Ammar

Argentínska þjóðin svífur um á bleiki skýi þessa dagana eftir frábært gengi fótboltalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í Katar.

Argentínumenn mæta Frakklandi í úrslitaleik HM á sunnudaginn og geta þá orðið heimsmeistarar í þriðja sinn og í fyrsta sinn síðan Diego Maradona tók við heimsbikarnum í Mexíkóborg árið 1986.

Hetjan er auðvitað hinn magnaði Lionel Messi sem er kominn með fimm mörk og þrjár stoðsendingar á mótinu og hefur verið valinn maður leiksins í fjórum af sex leikjum argentínska landsliðsins.

Það er óhætt að halda því fram að argentínska þjóðin sé mjög þakklát fyrir Messi.

Argentínumenn syngja söngva til Messi út um allt Argentínu og í rauninni út um allan heim líka.

Það var líka góður hópur stuðningsmanna sem vildi koma þakklæti sínu til skila og mættu því fyrir utan heimili „ömmu“ Messi í Rosario þar sem Messi fæddist.  Hún er reyndar ekki amma hans í alvörunni en hefur fengið viðurnefnið frá fólki í hverfinu enda mikill Messi aðdáandi.

Hér fyrir neðan má sjá þá syngja nafn Messi og veifa til „ömmu“ Messi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×