Um tvö þúsund slíkir skriðdrekar eru í notkun víða um Evrópu og hafa ráðamenn í nokkrum ríkjum sagst vilja senda skriðdreka til Úkraínu. Þeir eru þó framleiddir í Þýskalandi og ráðamenn þar þurfa að veita slíkum hergagnasendingum blessun sína. Það hafa Þjóðverjar ekki viljað gera hingað til.
Skriðdrekarnir þykja hentugri fyrir Úkraínumenn en Abrams skriðdrekar Bandaríkjamanna, þar sem þeir síðarnefndu ganga fyrir flugvélaeldsneyti, þurfa meira viðhald og umfangsmeira birgðanet en Leopard 2 skriðdrekar.
Þjóðverjar og Bandaríkjamenn tilkynntu þó fyrr í mánuðinum að ríkin myndu senda tugi vestrænna bryndreka til Úkraínu á komandi mánuðum. Frakkar ætla einnig að senda brynvarin farartæki sem búin eru fallbyssum.
Frá því Rússar réðust inn í Úkraínu hafa Þjóðverjar veitt Úkraínumönnum mikla hernaðaraðstoð en hafa þrátt fyrir það verið gagnrýndir fyrir að draga lappirnar í þeim málum. Þrýstingurinn varðandi skriðdrekasendingar hefur þó aukist á Þjóðverja að undanförnu en Bretar tilkynntu nýverið að þeir ætluðu að senda fjórtán af Challenger 2 skriðdrekum sínum til Úkraínu.
Úkraínumenn hafa vonast til þess að frumkvæði Breta muni leiða til þess að aðrir, og þá sérstaklega Þjóðverjar, sendi einnig vestræna skriðdreka til Úkraínu.
Christine Lambrecht, fyrrverandi varnarmálaráðherra, sagði af sér í gær en hún hafði sætt mikilli gagnrýni að undanförnu. Embætti varnarmálaráðherra Þýskalands þykir mjög mikilvægt um þessar mundir en Scholz hefur heitið því að fara í töluverða hernaðaruppbyggingu eftir margra áratuga samdrátt á herafla Þýskalands.
Sjá einnig: Hættir í kjölfar hins umdeilda áramótaávarps
Andrzej Duda, forseti Póllands, sagði í dag að Pólverjar ætluðu sér að senda Leopard 2 skriðdreka til Úkraínu en Pólverjar hafa fyrir sent Úkraínumönnum mikið magn skriðdreka frá tímum Sovétríkjanna, bæði uppfærða og aðrar eldri týpur. Það hafa önnur ríki Austur-Evrópu einnig gert.
Vilja vestræna skriðdreka fyrir nýjar sveitir
Úkraínumenn vinna nú hörðum höndum að því að byggja upp nýjar hersveitir og segja að vestrænir skrið- og bryndrekar muni veita þeim töluvert forskot á Rússa. Talið er að Rússar séu einnig að byggja upp nýjar sveitir og óttast Úkraínumenn að Rússar ætli að reyna að opna nýja víglínu á næstu mánuðum.
AP fréttaveitan segir að Pistorius, sem er 62 ára gamall, hafi verið í þýska hernum frá 1980 til 1981 og hafi í kjölfarið lagt stund á laganám. Hann var bæjarstjóri Osnabrueck frá 2006 til 2013.
Þá segir DW að þó Pistorius sé lítið þekktur á heimssviðinu, sé hann vinsæli í Neðra-Saxlandi og þekktur sem stjórnmálamaður sem kemur hlutunum í verk. Þá hafi hann unnið mikið með lögreglunni í Saxlandi og sé mikill stuðningsmaður lögreglunnar.
Annað af fyrstu verkefnum nýs varnarmálaráðherra verður að fara á fund bakhjarla Úkraínu sem haldinn verður í Ramstein í Þýskalandi á föstudaginn. Verði Pistorius ekki búinn að taka ákvörðun um skriðdrekasendingar til Úkraínu fyrir það, má gera ráð fyrir að þrýst verði á hann þar.