Fótbolti

Segir að dómarinn hafi eitthvað á móti Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp er ekki stærsti aðdáandi Paul Tierney.
Jürgen Klopp er ekki stærsti aðdáandi Paul Tierney. Marc Atkins/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, var eðlilega kampakátur eftir dramatískan 4-3 sigur liðsins gegn Tottenham í gær. Þrátt fyrir það tók hann sér góðan tíma í að láta dómara leiksins, Paul Tierney, heyra það.

Þjóðverjinn var allt annað en sáttur við það að Tierney skyldi dæma aukaspyrnu á lokakafla leiksins. Aukaspyrnu sem Heung-Min Son tók fyrir Tottenham og Richarlison jafnaði metin í 3-3 á þriðju mínútu uppbótartíma. Diogo Jota endurheimti þó forystu Liverpool örfáum andartökum síðar og tryggði liðinu þar með dramatískan 4-3 sigur.

Klopp fagnaði markinu vel og innilega og lét óánægju sína um leið í ljós við fjórða dómara leiksins. Raunar missti þjálfarinn sig svo mikið í gleðinni að hann virtist togna aftan á læri í fagnaðarlátunum og Paul Tierney sýndi honum gula spjaldið fyrir athæfi sitt fyrir framan fjórða dómarann.

„Við eigum okkar sögu með Tierney og ég veit í rauninni ekki hvað hann hefur á móti okkur,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports.

„Hann hefur sjálfur sagt að það séu engin vandamál okkar á milli, en það bara getur ekki verið satt.“

„Hvernig hann horfir á mig er eitthvað sem ég skil ekki. Hér á Englandi þarf enginn að útskýra neitt svona og það er virkilega erfitt að skilja þetta. Það sem hann sagði við mig þegar hann sýndi mér gula spjaldið var ekki í lagi,“ bætti Klopp við, án þess þó að taka það fram hvað Tierney á að hafa sagt við hann.

Enska dómarasambandið PGMOL sendi svo frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem sambandið segir að Tierney hafi verið fagmannlegur í sinni nálgun.

„PGMOL veit af ummælum Jürgen Klopp eftir leik liðs hans gegn Tottenham Hotspur.“

„Samskipti dómara í ensku úrvalsdeildinni eru tekin upp í öllum leikjum í gegnum samskiptabúnað þeirra og eftir að hafa farið yfir hljóðupptöku Paul Tierney úr leik dagsins getum við staðfest að hann hafi verið fagmannlegur í sínu starfi, meðal annars þegar hann aðvaraði þjálfara Liverpool.“

Þess vegna vísum við öllum ásökunum um óviðeigandi hegðun Tierney á bug,“ segir í ýfirlýsingu sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×