Samningafundi fulltrúa BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga lauk án árangurs á öðrum tímanum í nótt eftir að fundað hafði verið í um 13 klukkustundir.
Í dag hófust því áframhaldandi og stigvaxandi verkfallsaðgerðir félagsmanna BSRB.

Verkfallsverðir stóðu vaktina við Lágafellslaug í Mosfellsbæ þegar fréttastofu bar að garði og varð vitni að fjölmörgum sem höfðu hugsað sér að skella sér í ræktina eða sund en komu að læstum dyrum.
„Við eigum ekki að þurfa að standa hér. Það á bara að semja,“ segir Ólöf Ásta Karlsdóttir, yfirvaktstjóri í Lágafellslaug.
„Að þurfa að loka þessu mannvirki er bara lýðheilsumál og bara fáránlegt að það skuli ekki vera búið að semja.“

Það var líka lokað í leikskólanum við hliðina á sundlauginni en þar komu foreldrar einnig að læstum dyrum.
„Ég misskildi póstinn,“ sagði Kristín Lilja Jónsdóttir sem var mætt með tveggja ára dóttur sína á leikskólann.
Ég hélt að það væri opið eftir klukkan tólf en það er lokað í allan dag.
Kristín segir áhrif verkfallsins hafa mjög mikil áhrif á sínu heimili og segist ekki vita hvernig eigi að leysa flækjuna næstu daga. „Við erum bæði í fullu starfi og eigum að vinna frá átta til fjögur en við verðum að vera heima. Við verðum bara að reyna taka einn dag i einu.“
Annað barnið mætir fyrir hádegi og hitt eftir hádegi
Í Kópavogi er einnig uppi flókin staða hjá fjölmörgum foreldrum og þau Joaquin Páll Palomares og Vera Panitch eru gott dæmi um það. 4 ára tvíburarnir þeirra, Gabríel Þór og Klara Sól, eru á sömu deild í leikskólanum en fá ekki að mæta á sama tíma.

„Það er búið að skipta deildinni upp í tvo hópa og það er farið eftir stafrófsröð sem þýðir að þau eru í sitthvorum hópnum,” útskýrir Joaquin Páll.
„Þannig eitt barnið er í skólanum fyrir hádegi og hitt barnið bíður heima. Og svo er skipt eftir hádegi. Þá fer hitt barnið í leikskólann og hitt barnið er heima.”
Hjónin lýsa síðustu vikum sem óvissuástandi.
„Við fáum eiginlega engar fréttir fyrr en á laugardegi eða sunnudegi um hvernig vikan mun líta út. Svo veit maður ekkert hvernig þetta mun þróast. Við þurfum alltaf bara að taka einn dag í einu og sjá til hver verður heima, og hvort einhver geti passað.“
