Fótbolti

Staðfesta 76 ára Hodgson sem setur stefnuna á efri hlutann

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Roy Hodgson ætlar sér að skila Crystal Palace í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar.
Roy Hodgson ætlar sér að skila Crystal Palace í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

Crystal Palace hefur staðfest að Roy Hodgson muni stýra liðinu á næsta tímabili í ensku úrvalsdeildinni og þessi tæplega 76 ára gamli þjálfari er strax farinn að setja markið hátt.

Hodgson snéri aftur til Palace í mars á þessu ári eftir að Patrick Vieira var látinn fara frá félaginu og skrifaði þá undir samning út síðastliðið tímabil.

Undir stjórn Hodgson forðaði liðið sér frá falli og nældi í 18 stig í þeim tíu leikjum sem hann var við stjórnvölin. Hann hefur nú samþykkt að stýra liðinu út næsta tímabil.

„Ég veit hversu góðan hóp við erum með hérna og þetta er góð blanda af ungum og efnilegum leikmönnum og svo eldri og reyndari mönnum með reynslu af ensku úrvalsdeildinni og landsliðsverkefnum,“ sagði Hodgson eftir að hann var kynntur til leiks.

„Ég er búinn að eiga gott samtal við við stjórnarformanninn og við vorum sammála um það að við þyrftum að leggja metnað í að ná sem mestu úr svona hæfileikaríkum hópi.“

„Þess vegna höfum við ákveðið á að setja okkur það markmið að enda í efri hluta deildarinnar. Við teljum að það sé vel gerlegt með svona frábæran leikmannahóp og magnaða stuðningsmenn sem fylkjast við bakið á liðinu viku eftir viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×