Viðskipti erlent

Hagnast mikið og dæla peningum í gervigreind

Samúel Karl Ólason skrifar
Virði hlutabréfa Microsoft og Alphabet, móðurfélags Google, hefur hækkað verulega á þessu ári.
Virði hlutabréfa Microsoft og Alphabet, móðurfélags Google, hefur hækkað verulega á þessu ári. getty/smith collection/anadolu agency

Bæði Alphabet (móðurfélag Google) og Microsoft birtu í gær góð ársfjórðungsuppgjör sem sýndu aukinn hagnað og aðrar jákvæðar vendingar í rekstri fyrirtækjanna. Fyrirtækin eru í samkeppni um innleiðingu gervigreindar í leitarvélar Google og Bing og annan hugbúnað þeirra.

Fyrirtækin högnuðust bæði á kjarnarekstri þeirra. Microsoft hagnaðist um rúma tuttugu milljarða dala á öðrum ársfjórðungi þessa árs, sem samsvarar rúmum tveimur og hálfum billjónum króna. Það er aukning um tuttugu prósent á milli ára og fór fyrirtækið fram úr björtustu vonum fjárfesta og eigin áætlunum.

Áhugasamir geta skoðað uppgjör Microsoft hér.

Alphabet hagnaðist um 18,4 milljarða dala, eða um 2,4 billjónir króna.

Tekjur Google af leitarvél fyrirtækisins jukust töluvert og það gerði tekjur af auglýsingasölu á YouTube einnig. Það er þrátt fyrir áhyggjur sérfræðinga af því að auglýsingamarkaðurinn hefði minnkað. Auglýsingatekjur Google í gegnum kerfi sem birtir auglýsingar á vefsíðum annarra drógust þó saman.

Áhugasamir geta skoðað uppgjör Alphabet hér.

Verja fúlgum fjár í gervigreind

Þessi kjarnarekstur Microsoft og Alphabet gæti þó umturnast á næstu árum. Samkvæmt frétt Wall Street Journal eru bæði fyrirtækin að verja fúlgum fjár í þróun gervigreindar á sama tíma og gripið hefur verið til niðurskurðar á öðrum deildum. Bæði fyrirtæki hafa sagt upp þúsundum manna á undanförnum mánuðum.

Þá er gefið í skyn í uppgjörunum að búist sé við því að þessar fjárfestingar muni aukast á næstu árum.

Google hefur lengi verið með mun betri markaðsstöðu en Microsoft á sviðið leitarvéla en fyrirtækin eiga í þó nokkurri samkeppni í þróun gervigreindar. Microsoft hefur staðið framar á því sviði undanfarna mánuði með því að innleiða tæknina sem OpenAI notaði við gerð spjallþjarkans ChatGPT inn í hugbúnað fyrirtækisins og leitarvélina Bing.

Sjá einnig: Setja gervigreind í farþegasætið á netinu

Umrædd tækni er talin henta leitarvélum einstaklega vel þar sem hægt er að nota hana til að fá ítarleg svör við ítarlegum spurningum í stað þess að leita eftir nokkrum stikkorðum. Virði hlutabréfa Microsoft hefur aukist um nærri því helming á þessu ári og virði hlutabréfa Alphabet hefur aukist um 39 prósent.

Aðgerðir starfsmanna Microsoft varðandi gervigreind eru sagðar hafa kveikt á viðvörunarbjöllum innan veggja Google en tæknin þykir líkleg til að leiða til sviptinga á sviði leitarvéla.

Sjá einnig: Óðagot hjá Google þar sem unnið er að nýrri leitarvél

Sundar Pichai, forstjóri Alphabet og Google, sagði í samtali við fjárfesta í gær að gervigreind muni leiða til mikilli breytinga á því hvernig leitavélar virka og á aðrar vörur fyrirtækisins, samkvæmt frétt New York Times.


Tengdar fréttir

Segja það taka verulega á að sía viðbjóðinn úr ChatGPT

Lágt launaðir verktakar ChatGPT segja það reyna verulega á sálartetrið að sía viðbjóðinn úr tungumálalíkani spjallþjarkans ChatGPT. Starfsfólkið þarf ítrekað að lesa lýsingar á kynferðisofbeldi, barnaníð, sjálfsvíg og rasisma, svo eitthvað sé nefnt.

„Við hættum að sjá hvers virði mannleg hæfni er“

Advania og Myndlistaskólann í Reykjavík fóru í samstarf þar sem nemendur skólans endurgerðu auglýsingar fyrirtækisins sem gervigreind hafði skapað. Halldór Baldursson, kennari við MíR, horfir óttablöndnum augum til gervigreindarframtíðar en nemendur hans eru bjartsýnni.

Gervi­greind komin til starfa hjá Heilsu­gæslunni

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur samið við heilsutæknifyrirtækið Dicino um áframhaldandi þróun gervigreindarverkfæris sem nýtist í netspjalli Heilsuveru. Gervigreindin spyr sjúkling út sjúkdómseinkenni og áhættuþætti og ritar sjálfvirka læknaskýrslu á íslensku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×