Þetta segir í svari Sjóvár við fyrirspurn Vísis um áhrif notkunar ADHD-lyfja, á borð við Elvanse, á ábyrgðartryggingu ökumanna. Mikið hefur verið fjallað um stöðu ökumanna með ADHD eftir að hjón í Hveragerði greindu frá því að þau hefðu verið handtekinn vegna fíkniefnaaksturs, þar sem amfetamín mældist í blóði þeirra eftir neyslu Elvanse.
Þá var greint frá því á mánudag að maður hafi verið sviptur ökuréttindum sínum af sömu sökum.
Ökumenn þurfi að meta ástand sitt sjálfir
Í svari Sjóvár segir að ökumanni sé óheimilt að stjórna eða reyna að stjórna ökutæki sé hann þannig á sig kominn að hann sé ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega, sama af hvaða ástæðu það er, til dæmis vegna veikinda, hrörnunar, elli, ofreynslu, svefnleysis, áfengis, fíkniefna eða lyfjanotkunar. Ökumaður beri sjálfur ábyrgð á mati á eigin ökuhæfni þegar hann sest undir stýri hverju sinni.
Ef niðurstaða blóðsýna eða mat læknis eftir á staðfestir hins vegar að ökumaður hafi að einhverjum ástæðum ekki verið hæfur til þess að stjórna ökutækinu örugglega og það ástand hafi leitt til umferðaróhapps, geti það leitt til niðurfellingar eða skerðingar á bótarétti og hugsanlega til endurkröfu vegna tjóns sem viðkomandi olli öðrum.
Ekki reynt á í framkvæmd
Svar TM við sömu fyrirspurn er á svipaða leið og svar Sjóvár. Þar segir að varðandi þetta tiltekna lyf, Elvanse, þá virðist ekki lagt blátt bann við akstri ökutækja eftir töku þess heldur beri hverjum og einum að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árverkni.
Eins og almennt í vátrygginga- og skaðabótarétti þurfi að vera orsakasamband á milli töku lyfs og tjóns til að komið geti til skerðingar bóta til þess einstaklings sem tekur lyfið.
Til dæmis gæti einstaklingur sem ákveður að setjast undir stýri þrátt fyrir að vera með óskýra sjón, sem sé þekkt hliðarverkun Elvanese, þurft að sæta skerðingu bóta ef viðkomandi lendir í tjóni og tengsl eru milli tjónsins og þess ástands. Á sama hátt geti einstaklingur án slíks samhengis átt rétt á fullum bótum þótt viðkomandi taki lyfið. Ólíkar reglur geti gilt um refsiábyrgð og skaðabótaábyrgð hvað þetta varðar.
Þá segir að ekki finnist dæmi um að á þetta hafi reynt í framkvæmd hjá félaginu.
Önnur tryggingarfélög svöruðu ekki fyrirspurn Vísis.