Fótbolti

Burnley í 16-liða úrslit eftir stórsigur | Luton og Úlfarnir úr leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Anass Zaroury lagði upp þrjú fyrir Burnley í kvöld.
Anass Zaroury lagði upp þrjú fyrir Burnley í kvöld. Gualter Fatia/Getty Images

Burnley er á leið í 16-liða úrslit enska deildarbikarsins eftir öruggan 4-0 útisigur gegn D-deildarliði Salford í kvöld. Á sama tíma féll úrvalsdeildarliðið Luton úr leik gegn C-deildarliði Exeter City og Wolves féll úr leik gegn B-deildarliði Ipswich.

Burnley átti ekki í vandræðum með Salford þar sem Sander Berge kom liðinu yfir strax á 12. mínútu áður en Jacob Bruun Larsen tvöfaldaði forystu liðsins átta mínútum síðar.

Dara O'Shea skoraði svo þriðja mark liðsins á 27. mínútu og gestirnir leiddu því með þremur mörkum í hálfleik.

Wilson Odobert skoraði fjórða mark gestanna eftir stoðsendingu frá Anass Zaroury á 81. mínútu, en það var þriðja stoðsending þess síðarnefnda í leiknum. Zaroury lagði einnig upp fyrir Berge og Larsen og stoðsendingaþrennan því í hús.

Niðurstaðan varð því 4-0 útisigur Burnley sem er á leið í 16-liða úrslit enska deildarbikarsins, en Salford er úr leik.

Á sama tíma mættust C-deildarlið Exeter City og úrvalsdeildarlið Luton þar sem Exeter hafði betur, 1-0. Demetri Mitchell skoraði mark Exeter á 84. mínútu áður en hann fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fjórum mínútum síðar, en það kom ekki að sök og C-deildarliðið er því á leið í 16-liða úrslit.

Þá fengu Úlfarnir heldur betur að finna fyrir töfrum bikarsins er liðið heimsótti B-deildarlið Ipswich. Hwang Hee-chan og Toti Gomes komu gestunum í Wolves í tveggja marka forystu eftir aðeins 15 mínútna leik, en mörk frá Omari Hutchinson, Freddie Ladapo og Jack Taylor sáu til þess að Ipswich snéri taflinu við og er á leið í 16-liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×