Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Erfiður vatnsbúskapar og aukin raforkunotkun stórfyrirtækja, heimila og smærri fyrirtækja segir Landsvirkjun valda því að fyrirtæki eins og fiskimjölsbræðslur og gagnaver þurfa nú að sæta skerðingu, sem sögð er geta staðið fram á vor.

„Þetta er sláandi. Það verður bara að segjast,“ segir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Storm Orku.
„Við höfum öll tækifæri til þess að gera Ísland grænt þegar kemur að orkuöflun, algjörlega grænt. Farið í hundrað prósent orkuskipti eða því sem næst. En því miður erum við ekki að nýta okkur þessi tækifæri.“
Sjálfur stýrir Magnús fyrirtækinu Storm Orku sem í áraraðir hefur árangurslaust reynt að þoka leyfisumsókn vegna vindorkuvers í gegnum kerfið.
„Það er auðveldara að fá leyfi fyrir dísilrafstöð. Það tók tvö ár að fá leyfi fyrir varaaflsdísilrafstöð Landsnets sem er ellefu megavött. En græn orka, það tekur ár eða áratugi að fá leyfi fyrir slíku verkefni.“
Magnús vitnar í nýja útreikninga Eflu fyrir Landsnet um að þjóðhagslegur kostnaður vegna raforkuskerðingar til fiskimjölsverksmiða hafi numið fimm milljörðum króna á einum vetri.

„Ef þetta eru tveir vetur þá eru þetta líklega tíu milljarðar, ef þetta eru þrír vetur, þá eru það fimmtán, ef við erum að tala um sambærilegar tölur fyrir hvern vetur:“
Landsmenn hafa undanfarin misseri kappkostað að kaupa sér rafmagnsbíla. Loftslagsávinningurinn sem af þessu hlýst, hann hefur hins vegar þurrkast upp. Dísilolíunotkun fiskimjölsverksmiðja í stað rafmagns á einum vetri sá til þess, að sögn Magnúsar.
„Þurrkaði út allan loftslagsávinning af öllum innfluttum rafmagnsbílum frá upphafi. Sem voru fluttir inn með ívilnunum frá ríkissjóði. Þannig að samfélagslegur kostnaður er verulegur.“
Magnús nefnir að Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, hafi bent á að huga mætti að því að leggja rammaáætlun niður, eins og Norðmenn hafi gert, og taka upp einfaldara leyfisveitingaferli. Hafa kerfið þannig að það tæki eitt ár og að það þyrfti eitt leyfi, en ekki að sækja þyrfti um leyfi frá mörgum aðilum.

Jarðhitavirkjun í Ölfusdal ofan Hveragerðis eru nýjustu áformin um græna orkuöflun en ráðamenn Orkuveitu Reykjavíkur og Sveitarfélagsins Ölfuss ákváðu í dag að viðstöddum umhverfisráðherra að sækja sameiginlega um rannsóknarleyfi. Miðað við ferli rammaáætlunar gæti orðið löng bið.
„Meðaltími verkefnisstjórnar á að afgreiða verkefni þaðan voru sextán ár. Ýktustu dæmin voru að það tók 23 ár að afgreiða eitt verkefni í gegnum rammaáætlun. Og síðan á eftir að byggja verkefnin.
Þannig að það sér það hver maður að þetta reikningsdæmi getur aldrei gengið upp,“ segir Magnús B. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Storm Orku.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: