Í heildina komu rúmlega tvö hundruð hermenn frá báðum ríkjum að aðgerðunum og var markmiðið að grafa undan getu ISIS-liða til að gera árásir í Írak og víðar auk þess sem reynt var að góma háttsettan leiðtoga samtakanna sem talinn er vera á svæðinu. Sá er sagður stýra aðgerðum ISIS í Mið-Austurlöndum og Evrópu.
Sjö bandarískir hermenn særðust, samkvæmt frétt New York Times, en heimildarmenn miðilsins vildu ekki nafngreina áðurnefndan leiðtoga sem reynt var að góma á meðan verið er að greina lífsýni úr þeim vígamönnum sem felldir voru.
Í dag eru um 2.500 hermenn í Írak og um 900 í Sýrlandi, þar sem þeir starfa náið með sýrlenskum Kúrdum í SDF. Þann 1. september gómuðu Bandaríkjamenn og SDF háttsettan leiðtoga ISIS sem hafði nokkrum dögum áður hjálpað erlendum ISIS-liðum að sleppa úr fangelsi í Raqqa.
Árásum ISIS-liða hefur fjölgað að undanförnu og á það bæði við í Írak og í Sýrlandi en þeim hefur fjölgað sérstaklega mikið í Sýrlandi. Bandaríkjamenn sögðu nýverið að haldi þróunin áfram út þetta ár, sé útlit fyrir að fjöldi árása ISIS-liða verði tvöfalt fleiri á þessu ári en þær voru í fyrra.
Í yfirlýsingu frá yfirstjórn Bandaríska hersins á svæðinu kom fram að eitt af helstu markmiðum leiðtoga ISIS væri að frelsa vígamenn samtakanna og hjálpa þannig við upprisu ISIS. Um níu þúsund erlendir vígamenn ISIS eru enn í haldi SDF en Bandaríkjamenn áætla að um 2.500 vígamenn séu enn virkir í Írak og Sýrlandi.
CENTCOM Forces Partner with Syrian Democratic Forces to Capture ISIS Leader and Assist in Operation to Recapture Escaped ISIS Fighters
— U.S. Central Command (@CENTCOM) September 2, 2024
U.S. Central Command (CENTCOM) forces, partnered with Syrian Democratic Forces (SDF), captured an ISIS leader, who was assessed as helping ISIS… pic.twitter.com/Pdd2MzXI9Q
NYT hefur eftir sérfræðingi að yfirvöldum í Írak hafi tekist nokkuð vel á undanförnum árum að halda aftur af ISIS-liðum en það sama eigi ekki við í Sýrlandi.
Ráðamenn í Írak telja ISIS ekki lengur hafa getu til að ógna ríkinu. Mohammed Shia al-Sudani, forsætisráðherra Íraks, sagði á fundi með æðsta yfirmanni herafla Bandaríkjanna í landinu um helgina að um væri að ræða smáa og einangraða hópa sem væru í felum á strjálbýlum svæðum.
Sudani er undir miklum þrýstingi frá bandamönnum sínum í Íran vopnuðum sveitum innan Írak sem tengjast Íran um að draga úr viðveru Bandaríkjamanna í ríkinu. Þessir hópar hafa tekið þátt í árásum á herstöðvar Bandaríkjanna í Írak.
Viðræður um veru bandarískra hermanna í Írak standa nú yfir.