Fjárlögin eiga eftir að fara í gegnum þingið, þar sem þau geta tekið einhverjum breytingum en samkvæmt drögunum hafa fjárútlát til varnarmála ekki verið hærri í Rússlandi frá tímum Sovétríkjanna.
Útgjöld til varnarmála innihalda ekki fjárútlát til þess sem skilgreint er sem „innlend öryggismál“ og aðra flokka sem eru leyndarmál. Samkvæmt frétt AFP fréttaveitunni munu heildarfjárútlát til varnar- og öryggismála vera um fjörutíu prósent af opinberum útgjöldum árið 2025.
Það samsvarar um 41,5 billjón rúblum eða tæplega sextíu billjón krónum og mun hækkunin milli ára samsvarar um 32 prósentum, samkvæmt frétt Reuters. Þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst árið 2022 vörðu Rússar um 5,5 billjónum rúbla til varnarmála.
Tekjur dragast saman
Samhliða þessari hækkun eiga tekjur ríkisins af sölu olíu og jarðgass að dragast saman vegna verðlækkunar og skattabreytinga. Samkvæmt drögunum eiga þessar tekjur að vera um 27 prósent af tekjum rússneska ríkisins og hefur það hlutfall aldrei verið lægra.
Þá kemur fram í fjárlagadrögunum að fjárútlát til varnarmála eigi að dragast saman aftur árið 2026. Það sama stóð hins vegar í síðustu fjárlagadrögum um árið 2025. Þá áttu útgjöld til málaflokksins að lækka um 21 prósent en eru þess í stað að hækka um 32 prósent.
Seðlabanki Rússlands hækkaði stýrivexti um heilt prósentustig í síðasta mánuði og standa vextirnir nú í nítján prósentum, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Þegar hækkunin var tilkynnt kom einnig fram að frekari vaxtahækkanir væru í vændum vegna mikillar verðbólgu, sem stendur nú í 9,1 prósenti.
Rússar eru að borga hermönnum mörgu sinnum meira í laun en þeir gerðu árið 2022, sem þykir til marks um erfiðleika hjá þeim við að laða að nýja hermenn. Um tíu prósent af öllum fjárútlátum tli varnarmála eiga að fara í laun og bónusgreiðslur til hermanna.