Skoðun

Náin tengsl

Eva Hauksdóttir skrifar

Loksins er ég kominn með kennitölu en nú þarf ég að fá fjölskyldu mína til Íslands. Getur þú hjálpað mér að sækja um dvalarleyfi?

Já, en þú verður að útvega gögn eins og hjúskaparvottorð og fæðingarvottorð o.fl. svo konan þín og dóttir geti komið.

Ok. En hvað þarf ég að útvega fyrir frænda og hans fjölskyldu?

Hmmm … Frændi getur ekki komið á grundvelli fjölskyldutengsla.

Já en hann er alveg eins og bróðir minn.

Bróðir þinn gæti heldur ekki fengið dvalarleyfi á þeirri forsendu. Systkini teljast ekki nánustu aðstandendur samkvæmt lögum.

Ha? Hvernig má það vera? En afi, hann má þó örugglega koma? Hann er eldhress og getur alveg unnið þótt hann sé orðinn sjötugur.

Nei, afi má ekki koma nema hann sé háður þér um umönnun. En ef hans börn væru hér þá mætti hann koma.

Ah, þannig að mamma þarf að koma fyrst og svo er hægt að sækja um fyrir afa?

Já, en sko mamma þín er of ung til að fá dvalarleyfi í gegnum þig.

Ertu að segja að það sé bara konan mín og dætur sem geta fengið dvalarleyfi?

Ef sótt er um á grundvelli fjölskyldutengsla já. En ekki sko eldri dóttir þín því hún er orðin 18 ára. En konan og yngri dóttirin geta komið. Það tekur að vísu heilt ár að fá dvalarleyfi fyrir þær en jú, þær teljast til nánustu aðstandenda.

Við getum ekki skilið eldri dóttur okkar eina eftir.

Nei, ég skil það en svona er þetta. Frændi má ekki koma, ekki afi, ekki mamma, ekki eldri dóttirin. En góðu fréttirnar eru þær að hundurinn þinn má koma. Stjórnvöld hafa alveg skilning á því að hundurinn geti ekki verið án þín.

Höfundur er lögmaður.




Skoðun

Sjá meira


×