Þetta kemur fram í tilkynningu frá Grá hernum, sem er baráttuhópur eldri borgara um lífeyrismál. Þar er forsaga dómsmálsins rakin.
Hæstiréttur hafnaði öllum röksemdum hersins
„Í nóvember 2022 kvað Hæstiréttur upp dóm í málum Gráa hersins og þriggja ellilífeyristaka gegn íslenska ríkinu vegna skerðinga ellilífeyris almannatrygginga. Dómurinn féll ríkinu í vil, en hann var strax kærður til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strasbourg. Nú hefur dómstóllinn tilkynnt að hann hyggist taka tiltekna þætti kærunnar til efnismeðferðar,“ segir í tilkynningunni.
Hæstiréttur hafnaði með dómi sínum öllum röksemdum Gráa hersins og þremenningunum á hendur ríkinu, og lét dóma héraðsdóms í málum þeirra standa óraskaða.
Málin voru ólík en öll byggð á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyrisþegar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi og iðgjöldum, væri gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka.
Bætur ekki markmiðið
„Kærendur höfðu haldið því fram að tekjutenging ellilífeyris almannatrygginga með 45% - 56,9% skerðingarhlutföllum og mismunandi frítekjumörkum eftir uppruna tekna stangaðist á við meðalhófs- og jafnræðisreglur stjórnarskrár. Markmiðið var þó ekki að fá dæmdar fébætur til þessara þriggja einstaklinga, heldur var vonast eftir að niðurstaða dómstóla yrði með þeim hætti að ríkisvaldið kæmist í framhaldinu ekki hjá því að breyta regluverki almannatrygginga til þess að það samræmdist grundvallarreglum réttarríkisins,“ segir í tilkynningunni.
Þrátt fyrir það hafi niðurstaða Hæstaréttar verið sú að „gefa ríkinu grænt ljós á gildandi skerðingaregluverk almannatrygginga“. Röksemdin að baki því hafi verið sú að við setningu laganna hafi löggjafinn ekki farið út fyrir það svigrúm sem hann hafi í krafti fjárstjórnarvalds síns til að skipuleggja fyrirkomulag framfærsluaðstoðar.
Áfangasigur
„Þessa niðurstöðu kærði Grái herinn í febrúar 2023 til Mannréttindadómstólsins, sem nú hefur tilkynnt að hann muni taka kæruna til efnismeðferðar. Dómstóllinn mun afmarka umfjöllun sína við nánar tilgreind álitaefni, þ.e. hvort skerðingarreglurnar frá 2017/'18 hafi mismunað ellilífeyristökum eftir því hvort lífeyrisréttindi þeirra voru í séreignar- eða sameignarsjóðum; og/eða með því að ákvarða frítekjumark þeirra sem enn höfðu atvinnutekjur miklu hærra en þeirra sem eingöngu fengu greitt úr lífeyrissjóðum.“
Í tilkynningunni segir jafnframt að Grái herinn álíti ákvörðun Mannréttindadómstólsins vera áfangasigur, jafnvel þótt hann hafi ákveðið að afmarka meðferð sína á málinu við áður tilgreind álitaefni. Lítill hluti þeirra mála sem berist dómstólnum fái efnismeðferð. Í ákvörðuninni felist því mikilvæg viðurkenning af hálfu dómstólsins á réttmæti kæru Gráa hersins.
Tveggja mánaða frestur til sáttaumleitana
„MDE hefur nú veitt íslenska ríkinu frest til 11. mars til að leita sátta í málinu. Náist engin sátt fyrir þann tíma, fær ríkið 12 vikna frest til viðbótar til að skila greinargerð um málið. Í framhaldinu fær svo Grái herinn frest til að skila greinargerð af sinni hálfu.
Málinu er því langt í frá lokið og alls óvíst hvenær endanlegur dómur MDE fellur eða hver niðurstaðan verður. En áfanginn sem náðst hefur með þessari ákvörðun Mannréttindadómstóls Evrópu er engu að síður mikið fagnaðarefni.“