Upp­gjörið: Álftanes-Njarðvík 75-81 | Vítaklúður og von­brigði í For­seta­höllinni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Khalil Shabazz (32 stig) og Dominykas Milka (23 stig) skoruðu 55 stig saman í leiknum í kvöld.
Khalil Shabazz (32 stig) og Dominykas Milka (23 stig) skoruðu 55 stig saman í leiknum í kvöld. Vísir/Diego

Njarðvíkingar sóttu tvö stig í Forsetahöllina í Bónus deild karla í körfubolta með sex stiga sigri á Álftanesi, 75-81. Heimamenn fengu fjölmörg tækifæri til að jafna leikinn undir lokin en taugarnar voru of trekktar. 

Lítið skar liðin að í fyrri hálfleik, mikil barátta var einkennandi og fínan varnarleik mátti finna hjá báðum liðum. Njarðvíkingar byrjuðu leikinn á tveimur góðum þriggja stiga skotum, en hittu svo ekki úr neinum af þrettán tilraunum sínum fyrir aftan línuna í fyrri hálfleik.

Evans Raven Ganapamo var valinn leikmaður umferðarinnar fyrir frammistöðu sína í síðasta leik en var slakur í kvöld.vísir / diego

Gestirnir bættu upp fyrir það með því að ráðast á sóknarfráköst og hirtu boltann átta sinnum til baka eftir misheppnuð skot í fyrri hálfleik.

Olnbogi.vísir / diego

Þrátt fyrir að lenda undir í frákastabaráttunni fóru heimamenn þó með fjögurra stiga forskot inn í hálfleik, staðan þá 40-36. Að miklu leiti þökk sé Justin James sem dró vagninn sóknarlega fyrir liðið.

Dúi Þór var einnig öflugur framan af fyrir Álftanes.vísir / diego

Seinni hálfleikur hófst síðan vel hjá heimamönnum, Justin James hélt áfram að draga vagninn sóknarlega og liðið náði upp níu stiga forystu. Njarðvík átti hins vegar frábært áhlaup undir lok þriðja leikhluta og jafnaði leikinn.

Evans Raven Ganapamo var valinn leikmaður umferðarinnar fyrir frammistöðu sína í síðasta leik en var ekki eins öflugur í kvöld. Langt því frá. vísir / diego
Veigar Páll náði sér ekki á strik sóknarlega í kvöld en bætti upp fyrir það með mikilli ákefð varnarlega.vísir / diego

Liðið stal síðan boltanum og hefði getað komist yfir áður en tíminn rann út en skotið klikkaði, staðan því jöfn 56-56 og allt uppsett fyrir æsispennandi fjórða leikhluta.

Njarðvík byrjaði fjórða leikhlutann betur en gríðarleg spenna var á lokamínútunum og lítið skildi liðin að. Undir lok leiks voru taugarnar hins vegar of trekktar hjá heimamönnum. Þeir fengu fjölmörg tækifæri af vítalínunni til að minnka muninn og jafnvel jafna leikinn, en skotin klikkuðu.

Bogalistin brást Justin James á ögurstundu.vísir / diego

Þeim tókst þó að minnka muninn í þrjú stig og gefa Herði Axel tækifæri til að jafna leikinn þegar um fimmtán sekúndur voru eftir en hann henti loftbolta úr horninu.

Njarðvík hirti frákastið, eins og svo oft áður í leiknum, og tókst að breikka bilið enn frekar. Lokatölur 75-81.

Stjörnur og skúrkar

Khalil Shabazz stórkostlegur og bætti upp fyrir slaka leiki hjá Isaiah Coddon og Evans Raven Ganapamo. Dominykas Milka óviðráðanlegur undir körfunni. Mario Matasovic sá eini sem skilaði einhverju af varamönnum Njarðvíkur.

Sóknarlega snerist flest um Justin James hjá Álftanesi, hann var frábær framan af en átti slakan endasprett í kvöld. Hann er líklega ekki eini Álftnesingurinn sem er svekktur með sína frammistöðu, margir sem hefðu mátt gera mun betur.

Dómarar [6]

Kristinn Óskarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson og Bjarni Rúnar Lárusson mynduðu þríeykið í kvöld. Ýmsar furðulegar ákvarðanir teknar og nokkrum augljósum brotum sleppt en ekkert stórt sem fór úrskeiðis. vísir / diego

Viðtöl

„Stundum er meðaltalið manni ekki hliðhollt“

Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness.vísir / diego

„Pirringur. Mikill pirringur,“ var það sem sat helst í Kjartani Atla Kjartanssyni, þjálfara Álftaness, eftir leik.

„Þeir fá bara fleiri sóknir en við, því þeir voru betri en við í frákastabaráttunni (44-24). Þeir skora tíu stig eftir sóknarfráköst, við tvö, það eru átta stig þar þannig að mér finnst það kannski að einhverju leiti útskýra þetta.“

Frákastabaráttan var sannarlega meiri og betri hjá Njarðvík í kvöld, en Álftanes var enn vel inni í leiknum á lokamínútunum og hefði getað jafnað með betri hittni úr vítaskotum. Kjartan telur taugar sinna manna ekki hafa verið of trekktar.

„Neinei, menn bara komast á línuna og svo eru bara ákveðið miklar líkur á að boltinn fari ofan í. Stundum er meðaltalið manni ekki hliðhollt og þetta er bara svona, það er bara næsta víti. Eina sem maður getur hugsað í þessari stöðu.“

Kjartan fer yfir málin með sínum mönnum í leikhléi þegar rúm mínúta er eftir.vísir / diego

Álftanes byrjaði árið á sigri en hefur nú tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum. Framundan er erfitt verkefni í næstu umferð gegn Íslandsmeisturum Vals sem unnu síðustu tvo leiki gegn toppliðum Tindastóls og Stjörnunnar.

„Nú er maður bara fyrst og fremst pirraður að hafa tapað þessum leik og kvöldið fer í það, eða svona fyrri hluti kvölds. Svo fer maður að horfa aftur á leikinn og greina hann, svo þarf bara að halda áfram. Það er skammt stórra högga á milli í þessari deild og þetta er bara deild þar sem öll lið geta unnið hvort annað. Við verðum bara að hugsa núna um næsta leik,“ sagði Kjartan að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira