Donald Trump, Bandaríkjaforseti, setti fram yfirlýsingar um yfirtöku á Gasa á blaðamannafundi með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sem staddur er í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum. Þegar Trump var spurður hvort hann hygðist senda Bandaríska hermenn til Gasa þá svaraði hann því til að hann myndi gera það sem nauðsynlegt þætti til að eignast landsvæðið.
Bandaríkjamenn myndu í kjölfarið hreinsa svæðið, ráðast í uppbyggingu og gera Gasa að stað sem Mið-Austurlönd gætu orðið stolt af og talaði um glæsibaðströnd eða „rivíeru“ í því samhengi.
Silja Bára Ómarsdóttir er prófessor í alþjóðastjórnmálum.
„Þetta eru í besta falli þvingaðir fólksflutningar en þetta mætti líka kalla „etníska“ hreinsun á borð við það sem er oft í aðdraganda þjóðarmorðs, ef maður vill halda því fram að það hafi ekki átt sér stað hingað til. Þetta er gríðarlega sterk yfirlýsing og með margþættar afleiðingar. Það hefur auðvitað lengi verið reynt að þvinga Palestínumenn burt úr sínu landi. Þessi yfirlýsing segir bara að Bandaríkin muni styðja Ísrael í því að taka þetta svæði algjörlega yfir.“

Trump fer fram á að Egyptaland, Jórdanía og fleiri nágrannaríki taki við Palestínumönnum. Silja segir það brjóta gegn fullveldisrétti ríkjanna að ætla þeim að taka við og útvega landsvæði undir milljónir íbúa frá öðru ríki.
„Komi nágrannaríkin eins og Egyptaland, eða Jórdanía til móts við þessa kröfu þá skapa þau aðstæður í sínum heimaríkjum sem myndu setja þeirra stjórnkerfi í uppnám því á þetta yrði ekki litið sem neitt annað en þjónkun við Ísraelsríki.“
Fram til þessa hafa Bandaríkin talað fyrir tveggja ríkja stefnunni.
„Hún hefur svo sem verið meira í orði en á borði hingað til en allavega hafa Palestínumenn getað unnið að sínu markmiði að verða fullvalda ríki innan þess ramma en það er ekki lengur í boði miðað við þetta,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir prófessor.