Þetta segir Jens Heiðar Ragnarsson, slökkviliðsstjóri á Akranesi, í samtali við Vísi en Mbl.is greindi fyrst frá.
Jens Heiðar segir að aldan hafi hrifið með sér tvo bíla sem voru á höfninni. Ökumaður annars þeirra hafi fylgt með út í sjó ásamt einum gangandi vegfaranda á höfninni. Slökkvilið hafi verið kallað út upp úr klukkan átta ásamt lögreglu, sjúkraflutningamönnum og björgunarsveitum.
Fluttur til Reykjavíkur til öryggis
Mennirnir tveir hafi ekki verið lengi ofan í sjónum og hafi komið sér af sjálfsdáðum upp úr sjónum með hjálp viðstaddra á höfninni. Þeir hafi verið kaldir og lemstraðir og báðir fluttir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands til athugunar. Annar hafi í kjölfarið verið fluttur til Reykjavíkur á sjúkrahús til öryggis.
Jens Heiðar kveðst ekki búa yfir nánari upplýsingum um líðan mannanna tveggja, skoðun verði að leiða hana í ljós.
Engin mengun enn sem komið er
Þá segir hann að bílarnir séu enn ofan í sjónum og verið sé að vinna í því að ná þeim upp ásamt köfurum. Enn sé þó beðið eftir því að veðrið gangi niður, enda sé mikill sjógangur. Ekki sjáist nein merki um olíumengun enn sem komið er en ekki sé ólíklegt að mengunar muni gæta.
Loks segir hann að slökkviliðið hafi verið að störfum meira og minna alla helgina vegna veðurs. Helstu verkefni hafi verið verðmætabjörgun, til að mynda með því að dæla upp úr kjöllurum. Talsverður ágangur sjós hafi verið á Skaganum.