Erlent

Telja mögu­legt að dular­fullar bækur frá mið­öldum tengist Ís­landi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Skinnið sem bækurnar voru bundnar gæti hafa komið frá Íslandi.
Skinnið sem bækurnar voru bundnar gæti hafa komið frá Íslandi.

Tilteknar miðaldabækur frá norðausturhluta Frakklands er lýst sem „dularfullum“ í umfjöllun New York Times vegna þess að fræðimenn áttu ansi erfitt með að segja til um hvers konar skinn var notað til að binda þær inn. Rannsókn hefur leitt í ljós að þær hafi líklega komið frá Skandinavíu, Skotlandi, Íslandi eða Grænlandi.

Um hefur verið að ræða eins konar teikni- eða skissubækur, þar sem teiknaðar voru myndir af dýrum.

Bækurnar, sem eru sextán talsins, rekja uppruna sinn til kaþólskra munka í Clairvaux-klaustrinu sem var stofnað árið 1115 í Champagne-Ardenne-héraðinu, þaðan sem kampavínið kemur. Í þessu klaustri var að finna eitt stærsta bókasafn miðalda.

Þessar tilteknu bækur vöktu athygli vegna skinnsins sem þær voru bundnar inn í. Á því voru sérstakar hárþyrpingar.

„Þessar bækur eru allt of hrjúfar og loðnar til að vera úr kálfaskinni,“ hefur New York Times eftir Matthew Collins, fornleifafræðingi við Kaupmannahafnarháskóla og Cambridge, en hann vann að rannsókn sem skar út um frá hvaða skepnu feldurinn kom.

Það mun hafa verið talsverð þrautaganga að komast að upprunanum. Á miðvikudaginn voru niðurstöðurnar birtar, og þær eru að bækurnar voru bundnar inn með selskinni. Samkvæmt lífsýnarannsókn þykir líklegt að skinnið hafi komið frá Skandinavíu, Skotlandi, Grænlandi, eða Íslandi.

Kort sem sýnir verslunarleiðir í Evrópu á miðöldum.Royal Society Open Science

Í umfjöllun New York Times er bent á að á miðöldum hafi verið mikil verslun milli Norðurlandaþjóða og meginlands-Evrópu. Umrætt klaustur er langt inni í landi, en var þrátt fyrir það á fjölfarinni leið.

Þá er tekið fram að á miðöldum hafi selaafurðir verið verðmætar. Kjöt, spik og vatnsheld skinn kom sér allt að góðum notum. Fram kemur að í Skandinavíu og Írlandi hafi selskinn verið notað til að binda inn bækur, en ekki hafi verið vitað um dæmi þess, fyrr en nú, á meginlandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×