Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs hafa 24 tilkynningar borist til ríkislögreglustjóra vegna gruns um mansal. Síðustu þrjú ár hafa samtals næstum níutíu tilkynningar borist um mansal á fyrsta ársfjórðungi. Það er fimm sinnum meira en á sama tímabili árin 2020-2022. Ástæðan er talið vera að erlendir brotahópar leiti í auknum mæli til landsins og flytji inn einstaklinga til hagnýtingar. Þá sé aukin vitund um mansal hjá lögreglumönnum. Þetta kemur fram í nýrri landamæragreiningu ríkislögreglustjóra.
Umsóknum um alþjóðlega vernd fyrstu þrjá mánuði ársins fækkaði um áttatíu prósent borið saman við árið 2023. Þær voru 281 frá janúar til mars í ár.
136 frávísanir það sem af er ári
Frávísanir á landamærum hafa hins vegar margfaldast á síðustu árum. Þær náðu sögulegu hámarki í fyrra og voru ríflega tvö hundruð á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þær voru 116 á sama tímabili í ár. Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Suðurnesjum segir að þær séu orðnar alls 136 á árinu.
„Ég geri ráð fyrir því að þetta ár verði annað eða þriðja stærsta í fjölda frávísunarmála á landamærunum. Við vorum með metár í fyrra. Ég geri ráð fyrir að aðgerðir lögreglu og tollsins á flugvellinum hafi einhver varnaðaráhrif. Ég á hins vegar ekki von á því að fjöldi frávísunarmála verði með sama hætti og í fyrra. Við vorum með yfir 700 frávísunarmál á síðasta ári,“ segir Úlfar.
Samkvæmt skýrslu ríkislögreglustjóra hefur dregið úr óreglulegri för fólks yfir landamæri Evrópu um fimmtán prósent. Á fyrstu þremur mánuðum ársins fóru um 45 þúsund án vegabréfs yfir landamæri Evrópu.