Leik lokið: ÍA - Vestri 0-2 | Taplausir Vestramenn sóttu sigur á Skagann

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Daði Berg skoraði og lagði upp fyrir Vestra.
Daði Berg skoraði og lagði upp fyrir Vestra. vísir / anton brink

Vestri sótti 0-2 sigur gegn ÍA í Akraneshöllinni og er því enn ósigrað eftir þrjár umferðir. Daði Berg Jónsson og Diego Montiel skiptust á að skora og leggja upp fyrir gestina í fyrri hálfleik, Skagamönnum tókst síðan illa að skapa sér færi í seinni hálfleik gegn vel skipulagðri vörn.

Skagamenn byrjuðu leikinn betur og komust í tvö fín færi fyrstu fimm mínúturnar. Steinar Þorsteinsson sólaði markmanninn eftir góða stungusendingu en náði ekki að setja boltann í netið. Viktor Jónsson átti síðan frábæran skalla sem small í stöngina og út.

Eftir það gekk heimamönnum hins vegar illa að skapa sér hættuleg færi og Vestri var meira ógnandi. Framherjarnir Daði Berg og Vladimir Tufegdzic voru duglegir að sækja boltann niður völlinn, sem skapaði pláss fyrir vængmennina til að vinna með.

Voru búnir að banka tvisvar áður

Vestri hafði skapað sér tvö góð færi með þannig uppspili og uppskar svo mark eftir tæpan hálftíma. Daði Berg sótti boltann og stakk honum svo inn fyrir á vinstri vængmanninn Diego Montiel sem kláraði færið snyrtilega, vippaði yfir Árna Marínó í marki ÍA.

Næstu tíu mínútur blésu Skagamenn til sóknar í leit að jöfnunarmarki en áfram varðist Vestri vel. Gestirnir skoruðu svo annað mark, nánast upp úr engu.

Bættu við eiginlega upp úr engu

Guy Smit gaf langan bolta fram, Vladimir Tufegdzic vann skallaeinvígið og flikkaði boltanum á Diego Montiel sem potaði honum áfram, inn fyrir vörnina á Daða Berg sem sólaði markmanninn og kláraði færið.

Vestramenn fóru því með tveggja marka forystu inn í hálfleik og settu upp sviðið fyrir seinni hálfleik, sem einkenndist af mikilli varnarvinnu.

Vörðu forystuna vel

Líklega er ekkert lið deildarinnar betra en Vestri í að verja forystu. Allar varnarfærslur þaulæfðar og ofboðslega vel skipulagðar. Skagamönnum reyndist erfitt að skapa sér stöður og færi.

Batnaði aðeins með breytingum en ekki mikið

Tvöföld breyting á miðsvæðinu um miðjan seinni hálfleik hressti örlítið upp á hlutina. Marko Vardic fékk mjög fínt skotfæri og Hlynur Sævar átti ágætis skalla, en í bæði skipti gerði Guy Smit vel og varði.

Vestramenn fóru því með tveggja marka sigur af Skaganum. Komnir með sjö stig, ósigraðir eftir þrjár umferðir. ÍA er með þrjú stig eftir sigur gegn Fram í fyrstu umferð en hefur tapað síðustu tveimur leikjum.

Vestri sótti 0-2 sigur gegn ÍA í Akraneshöllinni og er því enn ósigrað eftir þrjár umferðir. Daði Berg Jónsson og Diego Montiel skiptust á að skora og leggja upp fyrir gestina í fyrri hálfleik, Skagamönnum tókst síðan illa að skapa sér færi í seinni hálfleik gegn vel skipulagðri vörn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira