Í fréttatilkynningu landsstjórnar Grænlands kemur fram að meðal annars verði tvær stórar herþyrlur af gerðinni EH-101 staðsettar í Nuuk, freigáta verði send til að styrkja varnarviðbúnað á hafi og F-16 herþotur verði staðsettar í Kangerlussuaq til eftirlits á vesturströnd Grænlands.
Stöð 2 fjallaði um hervæðingu Kangerlussuaq-flugvallar í þessari frétt árið 2019:
Heræfingar verði auknar með vetrarþjálfun og æfingum sérsveita í tengslum við mikilvæga innviði. Þá mun grænlenskum ungmennum bjóðast grunnþjálfun í öryggis- og björgunarmálum.

Fram kemur að landsstjórn Grænlands hafi við undirbúning málsins átt í nánu samráði við varnarmálaráðherrann Troels Lund Poulsen og yfirmann danska hersins, Michael Wiggers Hyldgaard hershöfðingja.

„Staða öryggis- og varnarmála krefst þess að danski herinn æfi getu sína til að starfa á og í kringum Grænland. Það hefur verið forgangsverkefni landsstjórnar Grænlands að tryggja þátttöku heimamanna og að við sem íbúar styrkjum framlag okkar til öryggis lands okkar. Ég hlakka til að sjá nemendur í grunnnámi á norðurslóðum leggja sitt af mörkum til verkefnisins,” er haft eftir Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra landsstjórnar Grænlands í tilkynningunni.

„Frá því að ég varð varnarmálaráðherra hefur það verið forgangsverkefni mitt að efla öryggi á norðurslóðum og ég kann mjög að meta hið nána samstarf sem ég á við grænlensku landsstjórnina. Aukin viðvera danska hersins verður að gerast með hliðsjón af aðstæðum á hverjum stað og sérstökum áskorunum í öryggisstefnu á Grænlandi,“ er haft eftir varnarmálaráðherra Danmerkur, Troels Lund Poulsen.

„Stjórnvöld Grænlands og Danmerkur hafa ákveðið að efla hernaðarmátt á norðurslóðum. Kjarnaverkefni danska hersins er að framfylgja fullveldi og vernda allt konungsríkið. Við erum til staðar á landi, á sjó, á ísnum og í lofti á og við Grænland. Og við gerum það í nánu samstarfi við grænlensk stjórnvöld,“ er haft eftir hershöfðingjanum Michael W. Hyldgaard í fréttatilkynningu danska hersins.