Þetta hefur CBS News eftir heimildarmönnum sínum úr ríkisstjórn Trumps, eftir að forsetinn fékk kynningu á þeim valkostum sem hann stendur frammi fyrir varðandi mögulegar árásir á Fordo.
Einn heimildarmaður CBS sagði Trump telja að hann ætti engra kosta völ.
„Að klára verkið þýðir að rústa Fordo.“
Til að granda kjarnorkurannsóknarstöðinni, sem er grafin djúpt í fjall í Íran og er talin sú næst stærsta í landinu, þurfa Bandaríkjamenn líklega að varpa sérstakri sprengju sem þeir einir búa yfir.
Sprengjan heitir formlega GBU-57. Hún er þó einnig kölluð „bunker buster“ og „MOP“ eða „Massvie Ordnance Penetrator“. Hún er um 13,6 tonn að þyngd og er hönnuð til að grafa sig í gegnum um sextíu metra af steypu og bergi og springa í loft upp.
Fordo er þó grafin á um áttatíu metra dýpi og óljóst er hvort sprengjan dugi til verksins. Mögulegt er þó að varpa nokkrum sprengjum og er talið að þær seinni myndu fara dýpra í bergið, þar sem þær fyrri myndu hafa brotið bergið upp.
Trump hefur þó enn ekki tekið lokaákvörðun um það hvort hann muni láta gera árásina og jafnvel fleiri og er hann sagður binda enn vonir við að hægt sé að gera samkomulag við klerkastjórnina sem myndi koma í veg fyrir að þeir kæmu upp kjarnorkuvopnum.
Viðræður hafa átt sér stað milli íranskra og bandarískra embættismanna undanfarna daga.
Í gær sagði Trump að hann vildi ekki stríð við Íran en sagði að þegar valið stæði milli þess að berjast eða leyfa klerkastjórninni í Íran að eignast kjarnorkuvopn yrði maður „að gera það sem maður þarf að gera“. Forsetinn hefur lengi talað fyrir því að Íranar megi ekki eignast kjarnorkuvopn.
„Kannski þurfum við ekki að berjast,“ sagði Trump.
Sjá einnig: Vill ekki í stríð en segir klerkastjórnina ekki mega eignast kjarnorkuvopn
Meðal þeirra valmöguleika sem Trump er sagður skoða er að fá klerkastjórnina til að loka Fordo sjálfir og hætta að auðga þar Úran.
Íhuga að senda sérsveitarmenn í stað sprengja
Taki Trump þá ákvörðun að varpa ekki sprengjum á rannsóknarstöðina kemur til greina hjá ráðamönnum í Ísrael að gera áhlaup á hana með sérsveitarmönnum. Axios sagði frá því í gær að þetta væri til skoðunar í Ísrael.
Sérsveitarmenn gætu þá verið sendir til Íran og þeir gætu brotið sér leið inn í rannsóknarstöðina og komið þar fyrir sprengjum. Ísraelar gerðu sambærilegt áhlaup á eldflaugaverksmiðju Hezbollah í Sýrlandi í fyrra.
Sjá einnig: Ísraelar gerðu áhlaup á leynilega vopnaverksmiðju í Sýrlandi
Slíkt áhlaup í Íran fæli í sér mikla áhættu en enn sem komið er hefur í rauninni ekki verið hleypt úr einni byssu í stríðinu milli Ísrael og Íran, svo vitað sé. Eingöngu hefur verið notast við eldflaugar, dróna og sprengjur.
Það að Ísraelar hafa að miklu leyti stjórn á háloftunum yfir Íran gerir þeim þó auðveldara að flytja hermenn til landsins. Þeir ættu einnig tiltölulega auðvelt með að vakta svæðið kringum Fordo og koma í veg fyrir að íranski herinn eða byltingarvörður Íran sendi liðsauka þangað.