Leik lokið: Víkingur - Stjarnan 2-1 | Víkingar gal­opna fallbaráttuna í fyrsta leik undir nýrri stjórn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Víkingur átti frábæran fyrsta leik undir stjórn nýs þjálfara, Einars Guðnasonar.
Víkingur átti frábæran fyrsta leik undir stjórn nýs þjálfara, Einars Guðnasonar. vísir / anton brink

Víkingur tók á móti Stjörnunni og vann 2-1 sigur í elleftu umferð Bestu deildar kvenna. Víkingar sitja enn í næstneðsta sætinu en nú aðeins tveimur stigum frá Stjörnunni og þremur frá Tindastóli. Shaina Ashouri skoraði fyrsta markið, í sínum fyrsta leik í sumar. Dagný Rún Pétursdóttir tvöfaldaði forystuna svo rétt fyrir hálfleik. Gyða Kristín Gunnarsdóttir minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu seint í leiknum en Stjörnunni tókst ekki að setja jöfnunarmarkið.

Víkingur byrjaði mun betur og ógnaði markinu mikið í upphafi leiks. Bergdís Sveinsdóttir og Freyja Stefánsdóttir voru stórhættulegar, stungu sér inn fyrir vörnina og áttu nokkur skot sem rötuðu ekki á markið.

Shaina skoraði í fyrsta leiknum

Eftir tólf mínútna leik tók Víkingur svo forystuna með verðskulduðu marki.

Gígja Valgerður steig vel upp úr vörninni og vann boltann, sem barst til Shainu Ashouri.

Shaina lék á varnarmanninn með snöggu hliðarskrefi og lagði boltann í fjærhornið, í sínum fyrsta leik fyrir Víking í sumar. Ekki amaleg byrjun hjá henni, eða liðinu öllu.

Stjarnan steig aðeins upp eftir að hafa lent undir

Eftir markið varð meira jafnvægi með liðunum, Víkingar enn meira ógnandi en Stjarnan fór að komast upp af eigin vallarhelmingi og átti nokkrar ágætis sóknir. Hættulegasta tilraun gestanna var hins vegar langskot frá Ingibjörgu Lucíu, sem var að svífa upp í samskeytin en Eva Ýr stökk á boltann og blakaði honum yfir.

Tvöfölduðu forystuna rétt fyrir hálfleik

Eftir ágætis kafla hjá Stjörnunni urðu þær fyrir áfalli rétt fyrir hálfleik þegar Dagný Rún tvöfaldaði forystu Víkings.

Flott skipting þar frá hægri til vinstri, á Lindu Líf, sem komst framhjá varnarmanni og lagði upp markið. Dagný fékk boltann frá henni, var ekkert að drífa sig og tók snertingu, en skaut svo og skoraði af öryggi.

Dagný dúndraði, eftir að hafa tekið eina snertinu sem stressaði áhorfendur aðeins.vísir / anton

Linda var svo næstum því búinn að skora sjálf örskömmu síðar, en Vera Varis varði vel og sá til þess að staðan væri aðeins 1-0 í hálfleik.

Ólöglegt mark

Víkingar byrjuðu seinni hálfleikinn sterkt og skoruðu nánast strax, en Freyja var réttilega flögguð rangstæð.

Stjarnan minnkaði muninn

Seinni hálfleikur þróaðist svo þannig að Stjarnan steig hægt og rólega hærra og hærra upp völlinn og á áttugustu mínútu fiskaði Gyða Kristín vítaspyrnu.

Hún steig sjálf á punktinn og skoraði af öryggi.

Stjarnan reyndi að sækja jöfnunarmarkið en skapaði sér fá færi gegn þéttri vörn Víkinga. 

Stjarnan var í vandræðum með að opna vörn Víkings.vísir / anton

Linda Líf fékk svo frábært færi úr skyndisókn til að gera algjörlega út af við leikinn á fyrstu mínútu uppbótartíma, en skaut framhjá.

Það kom hins vegar ekki að sök, Víkingur fór með sigurinn og stigin þrjú.

Atvik leiksins

Átti sér stað fyrir leik. Nýi þjálfarinn Einar Guðnason mætti með stórar yfirlýsingar. Skipti um fyrirliða og gaf Gígju Valgerði bandið en ekki Bergdísi Sveinsdóttur sem hefur haft það á handleggnum í allt sumar.

Sagði Sigurborgu markmanni að setjast á bekkinn, Eva Ýr væri búin að standa sig betur á æfingum.

Virtist allt virka vel samt. Eva varði vel og Gígja var glæsileg í vörninni með fyrirliðabandið.

Einar lagði upp með að mæta með læti og það gekk eftir, Víkingarnir tóku forystuna eftir að hafa unnið boltann á vallarhelmingi Stjörnunnar þegar minna en fimmtán mínútur voru liðnar.

Stjörnur og skúrkar

Linda Líf átti frábæran leik. Dugnaður á báðum helmingum vallarins, vörn og sókn en hefði mátt fara betur með færin sem hún fékk. Bergdís og Freyja voru sömuleiðis flottar, í fyrri hálfleik sérstaklega.

Shaina sýndi gæðin sem hún býr yfir, mikill fengur fyrir Víkinga að fá hana aftur.

Eva átti frábæra vörslu í fyrri hálfleik og hélt leiknum jöfnum.

Hjá Stjörnunni standa fáar upp úr en Snædís María átti góða innkomu af varamannabekknum.

Dómarar

Vel haldið utan um hlutina í Fossvoginum í kvöld. Nokkuð rólegur leikur að dæma, lítið um vafaatriði og engin spjöld á loft.

Stemning og umgjörð

Engar áhorfendatölur opinberaðar en, á að skjóta, svona rúmlega hundrað í stúkunni. Mættu vera fleiri á föstudagskvöldi en þetta er mikil ferðahelgi, allir í fríi. Stemningin frekar lágstemmd, því miður enginn sem missti sig.

Viðtöl

„Fengum á okkur mark, annars var þetta algjörlega eftir áætlun“

„Mér líður ótrúlega vel. Frábær leikur, frábær andi og orka í liðinu frá fyrstu mínútu. Gríðarlegur sigurvilji. Ég get ekki verið annað en ótrúlega ánægður“ sagði Einar Guðnason eftir sinn fyrsta leik við stjórnvölinn.

Það fór samt ekki alveg allt eftir áætlun hjá honum.

„Nei við fengum á okkur mark, annars var þetta algjörlega eftir áætlun… Samheldni í liðinu, þær pressuðu saman og unnu boltann saman. Hvöttu hvora aðra á vellinum, jákvæðar en samt kröfuharðar.“

Einar gerði nokkuð stórar breytingar í sínum fyrsta leik, skipti markmanninum út og tók fyrirliðabandið af Bergdísi Sveinsdóttur.

„Það eru breytingar í hverjum leik, hvort sem það er markmaður eða eitthvað annað. Það hefur enginn rætt þetta neitt en hún Eva stóð sig heldur betur vel í dag og þegar [Sigurborg] Katla fær sénsinn, hún fær sénsinn, þá vona ég að hún standi sig líka vel.

Þær vita það, allar í þessu liði, að frammistaðan í leikjum og á æfingum og viðhorfið þeirra skiptir gríðarlegu máli þegar við veljum í liðið. En á móti kemur, að ég hef aldrei átt jafn erfitt með að velja lið eins og fyrir þennan leik“ sagði Einar og var inntur enn frekar eftir svörum með fyrirliðann, hvernig Bergdís hefði tekið í breytingarnar.

„Bara vel. Bara ekkert mál. Nú er Gígja fyrirliði og Bergdís hefur ekkert út á það að setja, hún er bara ánægð.“

Myndir 

Anton Brink, ljósmyndari Vísis, var á vellinum og smellti mörgum góðum. 

Allt eðlilegt hér. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira