Innlent

Fimm hand­teknir í að­gerðum sérsveitar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Tveir lögreglubílar auk sérsveitar ríkislögreglustjóra voru á Aðalgötunni.
Tveir lögreglubílar auk sérsveitar ríkislögreglustjóra voru á Aðalgötunni. Aðsend

Fimm voru handteknir á Siglufirði í kvöld í aðgerðum lögreglunnar á Norðurlandi eystra og sérsveitar Ríkislögreglustjóra. Einn var fluttur á sjúkrahús.

Klukkan tuttugu mínútur í sjö í kvöld barst lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning um slasaðan mann utandyra á Siglufirði. Samkvæmt heimildum fréttastofu var um að ræða alblóðugan mann fyrir utan Aðalgötu 34, þar sem verslunarhúsnæði er rekið á jarðhæð og skrifstofur og íbúðir eru á efri hæðum.

„Virtist um áverka að ræða sem gætu stafað af líkamsárás eða átökum milli manna. Til að tryggja almennt öryggi var farið í sameiginlega aðgerð LNE og sérsveitar Ríkislögreglustjóra,“ segir í tilkynningu frá lögreglu. 

Fimm voru handteknir og færðir í varðhald lögreglu. Hinn slasaði var fluttur á sjúkrahúsið á Siglufirði og þaðan á sjúkrahúsið á Akureyri. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um erlenda menn að ræða. 

Aðsend

Helena Rós Sturludóttir, upplýsingafulltrúi Ríkislögreglustjóra, staðfestir í samtali við fréttastofu að sérsveitin hefði verið kölluð út. Hún gat ekki veitt upplýsingar um hvers konar aðgerð væri að ræða.

Veistu meira um málið? Sendu okkur línu á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði heitið.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×