Heimir fagnaði sigri og HM enn mögu­leiki

Sindri Sverrisson skrifar
Evan Ferguson fagnaði vel eftir að hafa skorað dýrmætt mark fyrir Íra í kvöld.
Evan Ferguson fagnaði vel eftir að hafa skorað dýrmætt mark fyrir Íra í kvöld. Getty/David Fitzgerald

Írska karlalandsliðið í fótbolta, sem Heimir Hallgrímsson þjálfar, á enn von um að komast á HM eftir torsóttan 1-0 sigur gegn Armeníu í Dublin í kvöld.

Sigurinn þýðir að Írar fara upp fyrir Armena og eru í 3. sæti F-riðils fyrir síðustu tvo leiki sína í nóvember, gegn Portúgal á heimavelli og Ungverjalandi á útivelli. Írar eru með 4 stig, Ungverjar 5 og Portúgalar 10, eftir 2-2 jafntefli Portúgals og Ungverjalands í kvöld.

Írum, sem töpuðu á útivelli gegn Armenum í síðasta mánuði, gekk illa að skapa sér færi framan af leik og voru gestirnir nær því að skora í fyrri hálfleiknum, þrátt fyrir að skapa sér sömuleiðis lítið. 

Vendipunktur leiksins varð snemma í seinni hálfleik þegar Tigran Barseghyan missti stjórn á sér og skallaði Finn Azaz, og fékk rautt spjald fyrir. Manni fleiri skoruðu Írar sigurmarkið á 70. mínútu, þegar Evan Ferguson skoraði með góðum skalla eftir snögga hornspyrnu. 

Írar virtust svo vera að bæta við marki undir lokin en það var dæmt af vegna naumrar rangstöðu.

Heimir Hallgrímsson kemur skilaboðum til sinna manna á Aviva-leikvanginum í Dublin í kvöld.Getty/David Fitzgerald

Sigurinn ætti að létta aðeins af pressunni á Heimi sem var grátlega nálægt því að fagna stigi gegn Portúgal á útivelli á laugardaginn.

Írar þurfa núna líklega á stigi að halda gegn Portúgal í nóvember, áður en þeir halda í útileikinn við Ungverjaland sem gæti ráðið úrslitum um hvaða lið endar í 2. sæti og kemst í umspil.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira