Skoðun

Vita bændur ekki hvað bændum er fyrir bestu?

Trausti Hjálmarsson skrifar

Allir vilja bændum vel, ef marka má almenna umræðu um landbúnaðarmál og önnur hagsmunamál bænda. Ekki skiptir máli hver á í hlut, eða fyrir hvaða málstað viðkomandi talar; ef málið snertir á hagsmunum bænda þá vill svo skemmtilega til að hans lausn er líka akkúrat sú sem hentar bændum best.

Og ef bændaforystan er viðkomandi ekki sammála, þá er það að sjálfsögðu vegna þess að hún hefur ekki sama næma skilning á hagsmunum bænda… eða er ekki jafn umhugað um almenna hagsæld bænda og viðkomandi.

Nýlegt dæmi um þetta er heimsókn þeirra Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, og Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, í Bítið á Bylgjunni, þar sem þeir voru að ræða frumvarpsdrög til breytinga á búvörulögum.

Þeir voru að sjálfsögðu ekkert nema velvildin í garð bænda en höfðu af því áhyggjur að undirritaður hefði ekki skilið frumvarpsdrögin nógu vel. Þeir vildu því ólmir upplýsa almenning – og bændur að sjálfsögðu - um það hvað væri bændum fyrir bestu í þessu máli sem og öðrum.

Bændur lifa í raunheimum

Því miður þá verð ég að gera athugasemdir við nokkra þætti sem þeir Ólafur og Breki byggja sinn málflutning á.

Það sem skiptir bændur mestu máli hvað varðar afurðastöðvarnar, hvort heldur sem er í kjöti eða mjólk, er öruggt aðgengi og öruggar tekjur. Þetta haustið er ástæða til að staldra við og hugsa, jafnvel með jákvæðu hugarfari, til þess að allir bændur geta treyst því að fá afurðir sínar sóttar og greiddar. Sú staða hefur ekki alltaf verið sjálfsögð í gegnum árin.

Alltof oft hefur það gerst að rekstur ákveðinna afurðastöðva hefur verið svo erfiður að bændur hafa jafnvel ekki fengið greitt fyrr en langt er liðið á næsta ár frá innlögn og slátrun.

Kjötafurðastöðvar hafa margar, ekki allar sem betur fer, sveiflast á milli þess að ramba á barmi gjaldþrots og þess að steypast fram af barminum og verða gjaldþrota. Lengt hefur verið í ólunum með því að fá inn nýtt fjármagn, hvort sem er í formi hlutafjár eða lána, en reksturinn batnar lítið. Það er vegna þess að kostnaður í þessum litlu einingum hefur verið of hár og einingarnar ekki rekið sig.

Sameiningar, samvinna og verkaskipting eru leiðir til að hagræða í rekstri afurðastöðvanna, ná niður kostnaðarhlutföllum og rétta af reksturinn. Með því móti verður hægt að standa í skilum við bændur og bæta kjör þeirra. Þetta er það sem skiptir bændur mestu máli. Það hvort eignarhald afurðastöðvanna sé Félagi atvinnurekenda eða Neytendasamtökunum þóknanlegt eða ekki er algjört aukaatriði í stóru myndinni.

Hagræðing fyrir bændur og neytendur

Við sjáum þetta mjólkurmegin, þar sem þessi hagræðing hefur staðið yfir í rúm 20 ár. Enginn kúabóndi þarf að hafa áhyggjur af því að fá ekki greitt fyrir sína mjólk á réttum tíma. Hagræðingin í mjólkuriðnaðinum nemur 2-3 milljörðum króna á ári og hefur hún skilað sér í hærra afurðaverði til bænda og lægra verði til neytenda.

Þetta er hagræðingin sem við viljum sjá í kjötinu líka. Að standa núna ári eftir að búvörulögum var loks breytt og fullyrða að þau hafi ekki skilað sér í aukinni hagræðingu, eins og heyrst hefur, er eins og að kvarta undan því að birkifræin sem sáð var í fyrra séu ekki nú þegar orðin að myndarlegum skógi. Svona hlutir taka tíma og í raun hefði átt að leggja í þessa vegferð til hagræðingar í kjötinu á sama tíma og það var gert í mjólkinni. Þá væri staða bænda og neytenda væntanlega önnur.

Nýsköpun blómstrar meðal bænda

Af því að nýsköpun var nefnd sérstaklega í þættinum þá blómstrar hún sem aldrei fyrr um allt land og meðal bænda er fjöldinn allur af frumkvöðlum, því bændur vita að það verður að bera sig eftir björginni. Möguleikar til nýsköpunar hjá afurðastöðvunum eru hins vegar óhjákvæmilega takmarkaðir ef rekstur stöðvanna stendur ekki undir fjárfestingu í kjarnarekstri. Aukin hagræðing er líka forsenda aukinnar nýsköpunar.

Til að launa þeim Ólafi og Breka velvildina alla þá vil ég á móti ráða þeim heilt um eitt. Málflutningur þeirra hlyti annan og betri hljómgrunn ef þeir temdu sér að tala um bændur sem jafningja og sýndu félagskerfi bænda þá virðingu sem það á skilið.

Um 90% bænda eru félagsmenn í Bændasamtökunum. Þar eru haldnir deildafundir búgreina í samtökunum og á hverju ár er Búnaðarþing haldið, þar sem allir þingfulltrúar hafa jafnan atkvæðisrétt. Stjórn samtakanna er kosin á Búnaðarþingi og formaður Bændasamtakanna er lýðræðislega kjörinn í beinni kosningu allra félagsmanna. Allt þetta fólk hefur umboð til að tala máli bænda og gæta hagsmuna þeirra og starfar eftir stefnumörkun Búnaðarþings.

Að lokum þakka ég aftur fyrir hönd bænda auðsýndan áhuga á málefnum okkar, því alltaf þykir okkur gaman að heyra hvað heildsalar telja bændum fyrir bestu. Ég treysti því hins vegar að lesendur sýni því skilning að við treystum frekar eigin reynslu og hyggjuviti þegar kemur að hagsmunum okkar og lífsviðurværi – bæði til lengri og skemmri tíma litið.

Höfundur er formaður Bændasamtaka Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×