Skoðun

Einka­væðing orkunnar, skattasnið­ganga og líf­eyris­sjóðir

Ögmundur Jónasson skrifar

Sú var tíðin að orkuiðnaðurinn var allur að heitið geti í almannaeign.

Um aldamótin komu tilmæli frá Evrópusambandinu um að hann skyldi markaðsvæddur. Almenningur mætti hafa eignarhaldið á hendi en fara með það á forsendum markaðslögmála, engar millifærslur væru lengur heimilar á milli framleiðslu, dreifingar og smásölu. Allt rekið sem sjálfstæðar markaðseiningar. Þessar breytingar hafa verið teknar í áföngum, svokölluðum orkupökkum 1,2,3 og svo 4.

Síðan kom að því eins og vænta mátti að þannig sinnaðir stjórnmálamenn vildu nýta sér þessa markaðsvæðingu raforkugeirans með því að láta einkaaðila fá rekstur einstakra eininga í hendur. Þeir rækju allt betur en hið opnibera var fullyrt. Í þessum anda var sett það skilyrði þegar farið var að selja HS orku á sínum tíma að einvörðungu einkaaðilar mættu bjóða í kaupin.

Svo var selt. Stjórnmálamenn andvígir þessari stefnu sögðu þetta misráðið, gróðahagsmunir fjárfesta ættu hvergi að koma nærri grunnþjónustu á borð við orkumálin. Sumum fannst þó skömminni skárra að ef lífeyrissjóðir kæmu að málum, þá nytu lífeyrisþegar alltént góðs af gróða og þegar allt kæmi til alls hlytu lífeyrissjóðirnir að gæta hagsmuna almennings.

Vitnað í greinaskrif fyrrverandi ríkisskattstjóra

En svo er reynslan að koma í ljós. Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, fær ekki orða bundist og skrifar mjög athyglisverðar greinar i tímaritið Vísbendingu sem birtust fyrr í mánuðinum.

Hann bendir þar á eftirfarandi: Eigendur HS orku, sem eru erlendir fjárfestar og íslenskir lífeyrissjóðir, 14 talsins, ákváðu að veita sjálfum sér lán á háum vöxtum sem virðist hafa haft það eina markmið að hlunnfara ríkissjóð um skatttekjur. Lífeyrissjóðirnir stofnuðu félag um þessa lánveitingu; félag með framkvæmdastjóra og launuðum stjórnmönnum sem lífeyrisjóðirnir skipa. Félagið hefur þann tilgang einan að því er virðist að halda utan um lánið til sjálfs sín.

Orðrétt segir Indriði um þetta: „Á árinu 2022 ákváðu eigendur HS Orku hf., fjárfestingasjóðir Ancala Partners og Jarðvarmi slhf, að veita félagi í sameign þeirra, HS Orka Holding hf, 38 milljón dollara lán til 7 ára með 10,9% vöxtum. HS Orka Holding hf lánaði dótturfélagi sínu, HS Orku hf, fé þetta með sömu skilmálum. Á miðju ári 2024 var ákveðið að framlengja lánstímann til ágúst 2034 þ.e alls til 12 ára.

Lánið jafngildir um 5,5 mrd. íslenskra króna. Vextir eru ekki greiddir árlega en færðir til hækkunar á höfuðstóli lánsins. Þeir voru um 600 m.kr. fyrsta árið en fara vaxandi í um 1,8 mrd.kr. síðasta árið. Í lok lánstímans verður höfuðstóll lánsins orðinn um 18,3 mrd.kr. Vextir og vaxtavextir á tímabilinu, 13 mrd.kr., munu lækka tekjuskattstofn HS Orku hf um þá fjárhæð og lækka tekjuskatt félagsins um 2,6 mrd. kr. Reiknaður tekjuskattur félagsins 2023 og 2024 hefur þegar lækkað um 240 m.kr. vegna þessa.”

Það gefur auga leið að HS Orka hagnast á þessum snúningi; nú sýnir bókhald HS orku gífurlega vaxtabyrði, við það minnka skattaálögur en fyrirtækið verður betur aflögufært til að greiða eigendum arð. En hver tapar? Það erum við sem reiðum okkur á skatthirslur ríkissjóðs um fjármögnun velferðarkerfisins. Þangað renna nú minni skattar.

Hverjir hafa gert þetta gerlegt? Eðlilega byrja menn á því að horfa til lífeyrissjóðanna í landinu og þá kannski staðnæmast menn fyrst við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þar sitja fulltrúar ríkisstarfsmanna sem eiga allt sitt undir ríkissjóði komið og fulltrúar fjármálaráðherra sem eiga að gæta hagsmuna fjármálaráðuneytisins í stjórn. Þessir aðilar hafa gert þetta gerlegt, vitandi eða sem líklegra er, ómeðvitandi. Hvort tveggja væri ámælisvert. (Sjá nánar skrif Indriða H. Þorlákssonar hér)

En hvers vegna þegir þing og hvers vegna þegja félagar í lífeyrissjóðunum? Af flokkum sem nú sitja á þingi er svo að sjá að þeir telji sig hafa hagsmuni af þögninni. Þeir hafi átt þátt í einkavæðingunni eða þá að þeir eiga aðild að ríkisstjórn sem ekki má trufla í farsælum störfum sínum! Og spyrja má hvort félagar í lífeyrissjóðunum vilji ekki láta það spyrjast að þeir séu að hnýta í fulltrúa sína í stjórnum lífeyrissjóðanna.

Upplýsingar Indriða H. Þorlákssonar verða að fá umræðu

En gagnrýni jafngildir ekki óvild. Í þjóðfélagi sem vill vera opið og lýðræðislegt er reynt að byggja eftirlit og aðhald inn í gangverk kerfisins – checks and balances hefur það verið kallað á ensku.

Þegar gangverkið starfar eins og því er ætlað er það ekki á grundvelli óvildar heldur vegna þess að einstök tannhjól eru að snúast eins og þeim er ætlað.

En svo eru það fjölmiðlarnir. Hvað skýrir þögn þeirra?

Spyr sá sem ekki veit.

En hitt veit ég að upplýsingar Indriða H. Þorlákssonar verða að fá umræðu. Og það rækilega umræðu.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður og fyrrverandi stjórnarmaður í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.





Skoðun

Skoðun

Hamona

Benedikt S. Benediktsson skrifar

Sjá meira


×