Skoðun

Hvar er skýrslan um Arnar­holt?

Gunnar Salvarsson skrifar

Stöku sinnum koma upp alvarleg mál sem skekja þjóðina um stund. Fjölmiðlar fara mikinn og yfirvöld heita því að fara ofan í sauma á málinu. Síðan líður og bíður. Málið hverfur úr umræðunni, því hefur verið stungið undir stól eða sópað undir teppi. Ýmsir vona að málið sé úr sögunni. En svo er alls ekki. Dæmi um slíkt mál er rannsókn á starfsemi vistheimilisins Arnarholts á Kjalarnesi. Fjögur ár eru liðin frá því borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti að ráðast í heildstæða athugun á starfseminni. Þar var vistað fólk sem þurfti stuðning samfélagsins, vegna fötlunar eða geðrænna vandamála, jafnvel fólk sem enginn vissi hvar ætti að vera.

Þrátt fyrir fyrirheit borgaryfirvalda hefur engin rannsóknarskýrsla verið birt. Engin niðurstaða fengist, hvað þá afsökunarbeiðni eða viðurkenning á því sem fór úrskeiðis. Engu að síður eru til heimildir frá starfsfólki sem lýsti aðstæðum sem enginn ætti að þurfa að lifa við. Fólk var lokað inni í klefa, stundum daglangt en líka yfir lengra tímabil, jafnvel vikum saman, og þurfti að gera þarfir sínar í fötu. Hluti vistmanna var látinn hírast í gripahúsi. Lýsingar eru til um vistfólk sem var vanrækt, svangt og óhreint. Læknisþjónusta var afar takmörkuð og mannréttindi fótum troðin. Dæmi eru um fólk sem fannst látið eftir vítaverða vanrækslu.

Borgaryfirvöld hafa áður heitið því að skoða Arnarholt ofan í kjölinn. Þegar ásakanir um illa meðferð komu upp árið 1970, skipaði Reykjavíkurborg þriggja manna nefnd til að rannsaka starfsemina. Allir nefndarmenn voru læknar og sátu jafnframt í heilbrigðismálaráði borgarinnar, því sama ráði og bar ábyrgð á rekstri „hælisins” eins og það var jafnan nefnt á þeim tíma. Eftir 24 vitnaleiðslur skilaði nefndin áliti í apríl 1971. Niðurstaðan var sú að „ásakanir væru ekki á rökum reistar“. Sú niðurstaða var harðlega gagnrýnd. Steinunn heitin Finnbogadóttir, borgarfulltrúi og ljósmóðir, sem hafði fyrst vakið máls á aðstæðum, benti á að nefndin hefði hvorki verið óháð né trúverðug, því hún hefði í raun rannsakað eigin starfsemi. Rannsóknin var augljóslega gerð til að friða umræðuna, ekki til að finna sannleikann.

Rúmlega hálfri öld eftir „hvítþvott” læknanna blasir sama mynstur við. Enn er verið að bíða eftir niðurstöðum „heildrænnar athugunar“ sem samþykkt var árið 2021. Engin skýrsla hefur birst, engin opinber ábyrgð hefur verið tekin. Það sem gerðist á Arnarholti er hluti af sögunni um það hvernig við fórum með fólk sem ekki átti sér rödd. Stundum er þögnin eftirsóknarverð en í þessu tilviki meiðir hún.

Höfundur er fyrrverandi frétta- og dagskrárgerðarmaður.




Skoðun

Skoðun

3003

Elliði Vignisson skrifar

Sjá meira


×