Viðskipti innlent

Ráðinn verk­efna­stjóri stór­fjár­festinga

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Guðmundsson.
Karl Guðmundsson. Stjr

Karl Guðmundsson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra stórfjárfestinga á sviði atvinnuþróunar með aðsetur í forsætisráðuneytinu.

Í tilkynningu segir að starfið tengist vinnu stjórnvalda við mótun nýrrar atvinnustefnu fyrir Ísland og sé tímabundið til loka árs 2027.

„Starf verkefnastjóra stórfjárfestinga felst í því að leiða þátttöku stjórnvalda í átaki með atvinnulífinu sem snýr að því að ýta undir vöxt útflutningsgreina með háa framleiðni, samræma og móta aðkomu stjórnvalda að fjárfestingarverkefnum í atvinnulífinu og samskiptum við hagaðila.

Karl hefur víðtæka reynslu og hefur tekið þátt í stofnun og uppbyggingu fjögurra nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hann hefur m.a. starfað sem framkvæmdastjóri Florealis ehf., forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu og sinnt vöruþróun og markaðsmálum hjá Ekso Bionics, Zimmer Biomet og Össuri.

Karl er með MBA-gráðu frá University of California í San Diego og hefur auk þess lokið B.Sc.-gráðu í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands. Karl hefur þegar hafið störf í forsætisráðuneytinu,“ segir í tilkynningunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×