Skoðun

Eyjar í draumi eða dá­leiðslu, þögnin í bæjar­málum er orðin hættu­leg

Jóhann Ingi Óskarsson skrifar

Þar sem ég hef á síðustu misserum farið að tjá mig meira um pólitík langar mig að halda áfram, nú um bæjarmálin. Mér finnst oft eins og umræðan hér í Eyjum sé lágstemmd og að lítið heyrist frá stjórnarandstöðunni. Eins og hún hafi verið dáleidd. Það er eins og meirihlutinn vilji lágmarksumræður svo sem fæstir geri sér grein fyrir því að við erum að missa af tækifærum.

Að mínu mati hefur bæjarpólitískt starf verið of þægilegt fyrir þá sem nú sitja. Lítil gagnrýni heyrast og bæjarbúar, þótt margir séu óánægðir, veigra sér við að tjá sig af ótta við viðbrögð ráðafólks. Það er hins vegar grundvallaratriði í lýðræðinu að skoðanaskipti séu opin og heiðarleg. Ef fólk þorir ekki að tala, þá verður engin breyting. Ég ætla því að stíga fram fyrir þá Eyjamenn sem finna fyrir óánægju en hafa ekki viljað láta í sér heyra. Við sem búum hér verðum að þora að ræða það sem betur má fara.

Oft er talað eins og staðan í Eyjum sé draumur: nóg af fjármunum, góð staða á ánægjuvogum og allt í blóma. Það er vissulega jákvætt að skuldastaða bæjarins sé sterk, en það gerðist ekki af sjálfu sér. Í árslok 2018 var sveitarfélagið nánast skuldlaust og það voru til 3,9 milljarðar í sjóðum sveitarfélagsins (skammtímafjárfestingar og handbært fé), sem samsvarar um 5,6 milljörðum króna á verðlagi dagsins í dag. Í dag (miðað við seinasta ársreikning) eru þessir sjóðir komnir niður í um 1,7 milljarð. Það þýðir að á verðlagi dagsins er búið að eyða um 3,9 milljörðum króna af sjóðum sem áður voru ætlaðir til að sækja fram, bregðast við áföllum og tryggja stöðugar vaxtatekjur. Það þarf ekki að vera hávaxinn til að standa uppúr ef maður stendur á öxlum þeirra sem á undan fóru.

Spurningin er: hvert fóru þessir peningar? Mörg verkefni sem hefur verið hrint í framkvæmd voru þegar komin af stað og samþykkt áður en núverandi meirihluti tók við. Margt gott hefur verið gert, en mér finnst skortur á framtíðarsýn. Það er staðnæmst við fjögurra ára tímabil, og oft slegið úr og í, í stað þess að horfa til átta eða tíu ára. Í stað þess að byggja upp sterka heildarstefnu eru settir plástrar hér og þar, og jafnvel lögð áhersla á dýrar endurbætur á skrifstofum bæjarins í stað verkefna sem skipta fjölskyldur og atvinnulíf mestu.

Sem ungu foreldri finnst mér uppbygging sem snýr að fjölskyldum og framtíð fólks í Eyjum eiga að vera í forgangi. Áður en núverandi meirihluti tók við lá fyrir að byggja við Hamarsskóla og flytja tónlistarskólann þangað, frábært verkefni sem var lagt til hliðar. Fjármunirnir fóru í eitthvað annað.

Bæjarstjórnin hrósar sér af nægilegu leik- og skólaplássi, en hvað segir það þegar börnum fjölgar ekki og nýjar fjölskyldur eru ekki að flytja hingað í sama mæli og áður? Á okkur bara að finnast að frábært að það sé nægt leikskólapláss þótt þeim hafi ekki fjölgað í tugi ára? Er það ekki stöðnun? Það eru einkaaðilar eins og Laxey sem hafa skapað tækifærin, ekki bæjarstjórnin. Fólk flytur hingað einnig vegna þess að fasteignaverð annars staðar er orðið óviðráðanlegt. Af hverju nýtum við þetta tækifæri ekki betur til að byggja upp aðdráttarafl?

Sem smiður sé ég það líka í mínum eigin geira að nýframkvæmdir dragast úr hömlum. Af hverju þarf allt að taka svo langan tíma? Af hverju vantar tilbúnar lóðir? Af hverju er ekki lokið við deiliskipulag sunnan megin við Hraunhamar eða fleiri atvinnulóðir? Það eru of margar spurningar og of fá svör. Það virðist oft mikil orka fara í að tala um hlutina í baktjaldamakki frekar en að ráðast í þá.

Einnig er hættulegt þegar ákveðin mál eru talin „óþægileg“ til umræðu, eins og fólk þurfi að óttast viðbrögð ráðafólks ef það tjái sig. Jafnvel að Eyjamenn þori ekki að ýta á like takkann af því að með því sé fylgst Slíkt umhverfi þjónar engum. Ef við ætlum að standa okkur í samkeppni við önnur sveitarfélög verðum við að hætta að hugsa skammt og fara að byggja upp með langtímasýn. Það er augljóst að við erum farin að dragast aftur úr.

Að lokum vil ég nefna eitt jákvætt: Það er frábært að sjá framgöngu Eyjaganga ehf. og að einkaaðilar ýti málinu áfram. Frá bæjarstjórn hefur lítið heyrst annað en að „unnið sé að málinu á bak við tjöldin“. Svona mál eiga ekki að fara fram fyrir luktum dyrum. Bæjarbúar eiga að fá reglulegar upplýsingar og tækifæri til að mynda sameiginlegan þrýsting á Alþingi. Göng hingað eru ekki skraut, þetta er þjóðvegurinn okkar og honum þarf að sinna af alvöru.

Höfundur er húsasmiður, verktaki og fyrirtækjaeigandi.




Skoðun

Sjá meira


×