Viðskipti erlent

Hringir viðvörunarbjöllum vegna sam­keppni frá Google

Samúel Karl Ólason skrifar
Sam Altman, forstjóri OpenAI.
Sam Altman, forstjóri OpenAI. AP/Jose Luis Magana

Sam Altman, forstjóri OpenAI, fyrirtækisins sem er hvað þekktast fyrir ChatGPT mállíkanið sagði starfsmönnum sínum í gær að forsvarsmenn fyrirtækisins væru að hringja viðvörunarbjöllum þar. Búið væri að lýsa yfir neyðarástandi og er það vegna aukinnar samkeppni frá öðrum fyrirtækjum á sviði gervigreindar, sérstaklega vegna samkeppni frá Google.

Google opinberaði í síðasta mánuði nýja útgáfu af mállíkaninu Gemini og þykir það betra en ChatGPT á nokkrum sviðum.

Í minnisblaði sem Altman sendi starfsmönnum í gær og blaðamenn Wall Street Journal hafa komið höndum yfir segir forstjórinn að bæta þurfi gervigreind OpenAI hið snarasta. Jafnvel þó það komi niður á öðrum vörum fyrirtækisins.

Nefndi hann meðal annars að bæta þurfi upplifun notenda af ChatGPT og bæta það hvernig mállíkanið bregst við hverjum notanda á sinn hátt. Einnig þurfi að auka hraða gervigreindarinnar og áreiðanleika og gera henni kleift að svara fleiri spurningum.

OpenAI gaf nýverið út eigin vefvafra sem kallast Atlas og á að nota hann í samkeppni við Google, sem rekur vafrann Chrome, sem er mest notaði vafri í heimi.

Notendum fjölgar hratt

Að undanförnu virðist sem önnur fyrirtæki hafi saxað verulega á forskot OpenAI á sviði gervigreindar. Þar þykir Google hafa náð sérstaklega miklum árangri en notendum Gemini hefur fjölgað hratt frá því í sumar.

Frá Google bárust nýverið þær fregnir að reglulegum notendum hefði fjölgað úr 450 milljónum í júlí í 650 milljónir í október. OpenAI stendur einnig frammi fyrir mikilli samkeppni við fyrirtæki sem kallast Anthropic og á gervigreindina Claude. Notendum þeirra hefur einnig fjölgað töluvert.

Notendur OpenAI eru sagðir vera um 800 milljónir á viku.

Eins og fram kemur í frétt WSJ er OpenAI ekki rekið með hagnaði og þurfa forsvarsmenn fyrirtækisins sífellt að leita á náðir fjárfesta til að halda rekstri áfram. Tæknirisinn Google er ekki í sambærilegum aðstæðum.

Þá hafa forsvarsmenn OpenAI skuldbundið fyrirtækið til umfangsmikilla fjárfestinga í innviðum eins og gagnaverum til langs tíma og gæti þessi aukna samkeppni hægt á áætlunum fyrirtækisins um að skila hagnaði.

Samkvæmt áætlunum OpenAI þurfa tekjur fyrirtækisins að ná um 200 milljörðum á næstu árum, eigi fyrirtækið að skila hagnaði árið 2030.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×