Skoðun

Nýjar leið­beiningar WHO um geðheilbrigðismál

Kristín Einarsdóttir skrifar

Nýlega birti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) ítarlegar leiðbeiningar um stefnumótun og aðgerðir til að vernda og efla geðheilbrigði og vellíðan þvert á opinbera geira. Þessar leiðbeiningar eru mikilvægur vegvísir sem sýnir að ábyrgðin á geðheilbrigði landsmanna liggur ekki eingöngu hjá heilbrigðiskerfinu, heldur krefst samræmdra aðgerða á öllum stigum stjórnkerfisins.

Leiðbeiningarnar miða að því að styðja ríkisstjórnir í að meta hvernig stefnur, reglugerðir og áætlanir einstakra geira hafa áhrif á geðheilbrigði. Þær veita hagnýt skref til að flétta geðheilbrigði inn í þróun, innleiðingu og mat á opinberri stefnu.

Helstu áherslusviðin eru tvö:

Þverfagleg stefnumótun og aðgerðir til að efla forystu, forgangsröðun, ábyrgð og fjármögnun með það að markmiði að styrkja skuldbindingu á landsvísu.

Sértækar leiðbeiningar fyrir einstaka geira með stefnumótandi valkostum, aðgerðum og vísbendingum fyrir lykilgeira hins opinbera.

Meðal starfsgreina og atvinnusviða sem fá ítarlega umfjöllun og leiðbeiningar eru menntageirinn, vinnumarkaðs-og félagsmálageirinn, dóms- og löggæslumál og skipulags- og sveitastjórnamál.

Leiðbeiningar WHO hafa mikla þýðingu fyrir Ísland. Þótt mikil áhersla hafi verið lögð á að styrkja geðheilbrigðisþjónustu hér á landi, hefur oft skort á samræmda þverfaglega nálgun milli ráðuneyta og stofnana. Til að ná árangri er nauðsynlegt að skoða hvernig ákveðnir geirar geta tekið ábyrgð á að efla geðheilbrigði í sínu starfsumhverfi:

●Fræðslu- og menntamál: Menntamálaráðuneytið og sveitarfélög stýra leik-, grunn- og framhaldsskólum. Markmið samkvæmt leiðbeiningunum er að tryggja að geðheilbrigðisfræðsla og félagsfærni séu fastur þáttur í námskránni. Jafnframt er lagt til að tryggja skólum greiðan aðgang að sálfræðiþjónustu án tafa til að grípa inn í áður en málin verða alvarleg.

●Vinnumarkaðsmál og Félagsmál: Vinnueftirlitið og stéttarfélög spila lykilhlutverk hér. Áhersla er lögð á að móta skýrari stefnu gegn kulnun á vinnustöðum. Leggja þarf að fyrirtækjum að innleiða velferðaráætlanir (Wellbeing plans) til að draga úr streitu og vinna gegn aukinni einsemd.

●Skipulagsmál: Skipulagsstofnanir og sveitarfélög geta haft bein áhrif á geðheilbrigði íbúa. Tryggja skuli aukin græn svæði, betra aðgengi að samgöngum og öryggi íbúa séu rýnd í skipulagsmálum, þar sem slíkt hefur bein áhrif á almenna velferð og vellíðan íbúa.

●Fjármögnun: Fjármálaráðuneytið og Alþingi bera ábyrgð á fjárveitingum til bættrar geðheilsu. Það er mikilvægt að tryggja langtímafjármögnun til geðheilbrigðisverkefna á fjárlögum. Jafnframt þarf að skilgreina skýra ábyrgð milli ráðuneyta (t.d. heilbrigðis-, félagsmála- og menntamála) til að koma í veg fyrir að þjónusta skarast eða að skortur verði á nauðsynlegum stuðningi.

Með því að tileinka sér þessa þverfaglegu nálgun geta íslensk stjórnvöld tekið geðheilbrigði úr þröngum ramma heilbrigðiskerfisins og gert það að raunverulegu forgangsmáli þvert á allt samfélagið.

Höfundur er yfirmaður klínískrar þjónustu hjá Köru Connect.

Guidance on policy and strategic actions to protect and promote mental health and well-being across government sectors.




Skoðun

Sjá meira


×