Skoðun

Stúdenta­pólitík er pólitík

Ármann Leifsson skrifar

Á stúdentapólitík bara að vera eilíft tuð um bílastæðagjöld sem hefur engin víðtækari áhrif á samfélagið sem stúdentar tilheyra? Algeng klisja sem fólk heyrir um stúdentapólitík er að hún sé ekki og eigi ekki að vera tengd pólitík utan háskólans. Pælingin hljómar mjög vel en þegar betur er að gáð heldur hún engu vatni. Sé saga stúdentahreyfinga og hins akademíska samfélags skoðuð er augljóst að baráttan fyrir aðgengilegu háskólanámi og hagsmunum stúdenta sé hápólitísk. Stúdentar hafa þurft að berjast fyrir húsnæði fyrir stúdenta, betri náms- og kennsluaðstöðu, betra námslánakerfi og betri háskóla almennt. Rödd stúdenta skiptir líka máli þegar kemur að alþjóðamálum, umhverfismálum og öllu öðru sem snertir háskólasamfélagið í breiðu samhengi. Oft á tíðum eru stjórnvöld nefnilega treg til aðgerða, þá skiptir öflug pólitísk barátta stúdenta öllu máli.

Hagsmunabarátta stúdenta er pólitík

Í grunninn snýst hagsmunabarátta stúdenta um að krefjast betri kjara fyrir stúdenta, kjarabæturnar eru síðan stjórnvalda að framkvæma hvort sem það er háskólinn, sveitarfélög, ríkisstjórnin eða Alþingi. Dæmin eru endalaus, uppbygging Stúdentagarða og deiliskipulag háskólasvæðisins fer í gegnum borgaryfirvöld, breytingar á námslánakerfinu og skrásetningargjaldinu fara í gegnum Alþingi sem ákveður líka á hverju einasta ári fjármögnun háskólans. Félagsstofnun Stúdenta varð bókstaflega til með lögum frá Alþingi. Pælið í því, Stúdentakjallarinn er rekinn af stofnun sem varð til með lögum frá Alþingi en samt er því haldið fram að stúdentapólitík sé ótengd landspólitík.

Stúdentapólitík í samhengi

Baráttumál Röskvu hafa öll breiðari skírskotun en bara innan háskólans, baráttan fyrir samgöngukorti stúdenta er baráttan fyrir umhverfisvænni og ódýrara samfélagi og baráttan fyrir hækkun grunnframfærslurnar og námsstyrkjakerfi í stað námslánakerfis er barátta fyrir jöfnu aðgengi að námi sem er mikilvægt vopn gegn efnahagslegum ójöfnuði. Meira segja litlir hlutir eins og tillaga Röskvu um uppbyggingu ungbarnahreiðra á háskólasvæðinu eru barátta í þágu jafnréttismála, ungir foreldrar eiga nefnilega líka að geta menntað sig.

Háskólinn er ekki eyland, hlutleysi er afstaða

Almennt er talið að eitt af því sem skilur Röskvu og hina fylkinguna að í Stúdentaráði sé sú að Röskva tekur afstöðu í utanskólamálum og þá sérstaklega alþjóðamálum. Í fyrsta lagi hefur fylking núverandi meirihluta sögulega flakkað á milli þess að taka afstöðu í alþjóðamálum frá máli til máls. Í öðru lagi hafa alþjóðamál gjarnan bein áhrif á stúdenta t.d. þegar bandarísk stjórnvöld banna ákveðnum háskólum að taka við alþjóðanemum, því er ekki bara um utanskólamál að ræða. Í þriðja lagi þá er það afstaða til alþjóðamála að fella tillögu um stuðning við akademíska sniðgöngu gagnvart Ísrael vegna þess að þú vilt ekki taka afstöðu. Í hlutleysi er ávallt hagur einhvers falinn. Í skjóli hlutleysis hefur Stúdentaráð núverandi meirihluta ekki tjáð sig um mennta- og þjóðarmorð á Gaza né í öðrum málum sem snerta hið alþjóðlega háskólasamfélag. Ef Stúdentaráð tekur ekki afstöðu um hvort háskólinn eigi að versla við Rapyd þá skapast enginn þrýstingur um aðgerðir og sniðgöngu, að skila auðu er því ákvörðun sem hefur áhrif, í þessu tilfelli slæm.

Þetta er ekki flókið

Í raun er ég að kafa of djúpt í hlutina hér, þú þarft einfaldlega ekki að hafa meira en augu og eyru til að átta þig að háskólinn er hluti af samfélagi, þar með hefur samfélagið áhrif á háskólann og öfugt. Jafnt aðgengi til náms og góð lífskjör stúdenta eru nefnilega ekki sjálfsögð, það þurfti og þarf að berjast fyrir því. Röskva er óhrædd við að gera það vegna þess að við erum pólitísk.

Höfundur er forseti Röskvu.




Skoðun

Sjá meira


×