Sport

Damon búinn að semja á Spáni

Damon Johnson samdi fyrir helgi við spænska liðið Caja San Fernando Sevilla og mun spila með því í spænsku úrvalsdeildinni í vetur. Johnson lék einnig á Spáni í fyrra með Murcia í deildinni fyrir neðan en nú er hann kominn upp í úrvalsdeildina. Damon gat ekkert spilað með íslenska landsliðinu í haust vegna meiðsla en hann fór í aðgerð í sumar og hefur verið að ná sér af meiðslunum það sem af er vetri. Damon fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2002 en hann var þrisvar sinnum Íslandsmeistari með Keflavík (1997, 1999 og 2003). Johnson var til að byrja með bara til reynslu hjá Caja San Fernando Sevilla og var með í þremur leikjum áður en hann fékk samning. Damon hefur ekki spilað mikið í þeim fjórum leikjum sem hann hefur tekið þátt í á tímabilinu, samtals í 44 mínútur, ávallt í kringum tíu mínútur í hverjum leik. Caja San Fernando Sevilla er í sjöunda sæti í deildinni, hefur unnið sex af fyrstu tólf leikjum tímabilsins. Liðið vann Real Madrid í gær með þremur stigum á útivelli, 63-66 en Damon var stigalaus á þeim 10 mínútum sem hann lék. Damon, sem skoraði sjö stig á 13 mínútum í leiknum á undan, misnotaði eina skotið sitt gegn Real Madrid auk þess að taka tvö fráköst og gefa eina stoðsendingu. Real Madrid-liðið er í þriðja sæti í deildinni og þetta var því mjög góður sigur hjá Sevilla. Erlendir leikmenn skipa nánast eingöngu Sevilla-liðið en þar af eru þrír Bandaríkjamenn, tveir Bandaríkjamenn með evrópskt ríksisfang og tveir Evrópubúar. Það tók sem dæmi aðeins einn Spánverji þátt í sigrinum á Real Madrid.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×