Fótbolti

Eiður verður áfram þolinmóður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/E. Stefán

Eiður Smári Guðjohnsen segist ætla að sýna áfram þolinmæði og bíða rólegur eftir sínu tækifæri í byrjunarliði Barcelona.

Eiður hefur ekki verið í náðinni hjá Frank Rijkaard að undanförnu en kom þó inn á sem varamaður í leik liðsins gegn Celtic í Meistaradeildinni í gær. Hann lék einnig sem varamaður í leik liðsins gegn Atletico Madrid um helgina en var ekki í hópnum sem mætti Valencia í spænsku bikarkeppninn í síðustu viku.

Hann var spurður um möguleika sína að vinna sér sæti í byrjunarliðinu. „Ég ætla að leggja áfram hart að mér. Það eru margir hæfileikaríkir knattspyrnumenn í leikmannahópnum okkar og ég virði ákvarðanir þjálfarans. Ég tel að ég hafi nýtt tækifæri mín vel og ég mun bíða áfram."

Carles Puyol, fyrirliði Börsunga, gagnrýndi fjölmiðla fyrir leikinn gegn Atletico vegna umfjöllun þeirra um val Rijkaard á leikmönnum.

Eiður tók í svipaðan streng. „Þegar fyrirliðinn talar ber okkur hinum að hlusta og bera virðingu fyrir því sem hann segir. Þjálfarinn velur liðið og það verður að bera virðingu fyrir hans ákvörðunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×