Fótbolti

Marklínu-dómararnir verða í Meistaradeildinni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður nóg af dómurum í Meistaradeildinni í vetur.
Það verður nóg af dómurum í Meistaradeildinni í vetur. Mynd/AFP
Það verða fimm dómarar á vellinum í Meistaradeildinni á komandi tímabili en Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, tilkynnti þetta í dag. Það var gerð tilraun með tvo auka aðstoðardómara í Evrópudeildinni á síðasta tímabili og henni verður haldið áfram á komandi tímabili.

Meðal þeirra keppna sem verða með fimm dómara á þessu tímabili eru auk Meistaradeildarinnar; Forsetabikarinn í Asíu, franski deildarbikarinn, Meistarakeppni UEFA og leikir í Brasilíu og Mexíkó.

Alþjóðanefnd fótboltans, International Football Association Board (IFAB), tók málið fyrir á fundi sínum á dögunum og ákvað að haldið yrði áfram með þessa tilraun. Tilraunin verður síðan gerð upp á fundi nefndarinnar árið 2012.

FIFA og IFAB eiga samt sem áður eftir að taka fyrir umræðuna um marklínu-tækni til þess að skera úr um hvort boltinn fari inn fyrir marklínuna eða ekki. Málið hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðan að augljóst mark Frank Lampard á móti Þýskalandi á HM í Suður-Afríku var ekki dæmt gilt.

Sérstök tækninefnd á vegum beggja mun taka málið fyrir í október en marklínu-aðstoðardómararnir munu þangað til vera í langbestu aðstöðu allra dómaranna á vellinum til þess að meta það hvort boltinn fer inn fyrir marklínuna eða ekki.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×