Skoðun

Framkvæmdastopp í Reykjavík

Dagur B. Eggertsson skrifar
Átakalínurnar í aðdraganda borgarstjórnarkosninga eru að skýrast. Samfylkingin vill að Reykjavíkurborg ráðist í nauðsynlegt viðhald og framkvæmdir á næstu þremur árum og halda þannig uppi atvinnu í mestu kreppunni. Sjálfstæðisflokkurinn boðar frjálshyggju og afskiptaleysi og boðar 70% niðurskurð í framkvæmdum næstu þrjú árin. Þetta birtist í þriggja ára áætlun um framkvæmdir og rekstur Reykjavíkurborgar sem meirihluti borgarstjórnar kynnti í síðustu viku.

Fjárfesting úr 10 milljörðum í einnÞriggja ára áætlun meirihlutans felur nánast í sér framkvæmdastopp. Heildarfjárfesting A-hluta borgarinnar á tímabilinu á að vera 6,6 milljarðar sem er minna en framkvæmt hefur verið á meðalári að undanförnu. Þess má geta að árið 2008 var framkvæmt fyrir 10,3 milljarða en framkvæma á fyrir 1,3 árið 2013 samkvæmt hinni nýju áætlun. Þetta samhengi sést vel á meðfylgjandi mynd.

Ekki gert ráð fyrir HverahlíðavirkjunÞá vekur sérstaka athygli að í þriggja ára áætlun Orkuveitu Reykjavíkur er ekki gert ráð fyrir fjármögnun eða framkvæmdum við Hverahlíðarvirkjun en góð sátt hefur verið um þá framkvæmd frá umhverfissjónarmiðum. Skýringanna er að leita í því að meirihlutinn hefur keyrt fjárhag fyrirtækisins út á ystu nöf með því að fjórfalda skuldir þess á fjórum árum, þrátt fyrir viðvaranir. Ljóst er að leita þarf nýrra leiða við fjármögnun Hverahlíðavirkjunar. Virkjunin getur orðið lykill fyrir orkuöflun til fjölmargra atvinnuskapandi verkefna.

Áfram niðurskurður í viðhaldi og sumarstörfumRétt er að minna á að til viðbótar niðurskurði í framkvæmdum hefur meirihlutinn þegar skorið niður í viðhaldi fasteigna úr 1.323 milljónum 2008 í 734 milljónir á yfirstandandi fjárhagsáætlun. Þetta er helmings niðurskurður í mannaflsfrekustu verkunum. Enn meiri niðurskurður er í viðhaldi gatna og umhverfis borgarinnar þar sem farið er úr 1.323 milljónum árið 2008 í 611 milljónir króna á yfirstandandi ári. Þá er ótalið að sumarstörfum fækkar hjá umhverfissviði og framkvæmdasviði auk íþrótta- og tómstundasviðs eða samtals um 300 störf.

Samfylkingin setur atvinnumálin númer eittSamfylkingin mun leggja sérstaka áherslu á atvinnumál í aðdraganda borgarstjórnarkosninga og boðar breytingartillögur við framlagða þriggja ára áætlun. Hún verður tekin til afgreiðslu í borgarstjórn 16. mars nk. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart heldur er í beinu framhaldi af ítrekuðum tillögum flokksins um átak í viðhaldsverkefnum, mótun atvinnustefnu, nýtingu á tómu húsnæði í þágu nýsköpunar og atvinnueflingar auk annarra tillagna flokksins um atvinnumál í borgarstjórn á þessu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa sýnt þessum tillögum ótrúlegt fálæti.

Hanna Birna boðar frjálshyggjuAthyglisvert var að í borgarstjórn brást Hanna Birna Kristjánsdóttir við gagnrýni Samfylkingarinnar með þeim orðum að ljóst væri að Samfylkingin „hefði ekki trú á atvinnulífinu". Líklega er þarna um að ræða einhverja ómenguðustu frjálshyggjustefnu í atvinnumálum sem kynnt hefur verið frá hruni. Það á ekkert að gera - bara bíða. Klassísk jafnaðarstefna á krepputímum er þvert á móti sú að þá sé réttlætanlegt og mikilvægt að stuðla að atvinnu með opinberum fjárfestingum og átaki í tímabærum viðhaldsverkefnum, eftir því sem kostur er. Óhætt er að segja að hinar pólitísku átakalínur séu að skírast.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×