Fótbolti

Sebastien Frey: Er bæði sár og reiður

Elvar Geir Magnússon skrifar
Arjen Robben og félagar fagna því að Bayern München komst áfram.
Arjen Robben og félagar fagna því að Bayern München komst áfram.

Sebastien Frey, markvörður Fiorentina, sagðist vera bæði sár og reiður eftir að ítalska liðið féll úr keppni í Meistaradeildinni.

Liðið vann 3-2 sigur á Bayern München í kvöld en þar sem þýska liðið vann fyrri leikinn 2-1 kemst það áfram á fleiri mörkum á útivelli.

„Þetta eru mikil vonbrigði og við erum mjög reiðir. Við gáfum samt allt sem við áttum í þennan leik og unnum. En því miður var það ekki nóg vegna úrslitana úr fyrri leiknum," sagði Frey eftir leik.

„Frammistaða okkar í kvöld var góð og við vorum ótrúlega nálægt því að komast í átta liða úrslitin. Það var samt ekki okkur að kenna að það tókst ekki," sagði Frey og vitnaði þar í ólöglegt mark Bayern í fyrri leiknum sem átti aldrei að standa vegna rangstöðu.

Arjen Robben skoraði markið sem réði úrslitum í kvöld fyrir Bayern München með stórglæsilegu skoti. „Hann hitti boltann vel og það var ekkert sem ég gat gert. Hann er frábær leikmaður og maður býður alltaf hættunni heim með því að gefa honum svona skotfæri," sagði Frey.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×