Íslenski boltinn

"Fýlupúkinn“ Jónas Björgvin: Fólk "dílar“ mismunandi við hlutina í lífinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórsarinn Jónas Björgvin Sigurbergsson virtist fara í fýlu þegar hann var tekinn af velli í leik Stjörnunnar og Þórs í Pepsi-deildinni í gær en þetta vakti mikla athygli á samfélagsmiðlunum og var einnig tekið fyrir í Pepsi-mörkunum í gærkvöldi.

Páll Viðar Gíslason tók Jónas Björgvin af velli á 68. mínútu leiksins en staðan var þá 1-1. Stjörnumenn tryggðu sér sigurinn með marki úr umdeildri aukaspyrnu í uppbótartíma. En hvað var í gangi hjá Jónasi þegar hann var tekinn af velli?.

„Það var ekkert í gangi þannig séð. Ég var bara ósáttur með að vera tekinn útaf og fólk „dílar" mismunandi við hlutina í lífinu. Ég ákvað að fara afsíðis og hugsa aðeins en ég sat þarna líka og var að teygja. Það er líka auðvelt að taka hlutina úr samhengi þegar það er tekin mynd í nokkrar sekúndur af fimm mínútum," sagði Jónas Björgvin Sigurbergsson þegar Vísir heyrði í honum í dag.

Umræðan um Jónas Björgvin í Pepsi-mörkunum er aðgengileg hér fyrir ofan.

Jónas Björgvin var þarna í byrjunarliðinu í fyrsta sinn síðan á móti Breiðabliki 2. júlí síðastliðinn.

„Ég spilaði nánast ekkert í júlí. Ég spilaði mikið í byrjun móts en síðan datt ég út í síðustu leikjum. Þetta er bara ákvörðun þjálfarans. Hann velur liðið og ég var ekki einn af þeim ellefu sem hann taldi henta í þessa leiki. Ég kom inn í gær og ég vona að ég hafi gefið honum einhvern höfuðverk fyrir næsta leik," sagði Jónas Björgvin. En skammaði Páll Viðar þjálfari hann eitthvað eftir leikinn?

„Palli skammaði mig ekki enda hefði það verið algjör óþarfi. Menn eiga ekki að vera að gera úlfalda úr mýflugu," segir Jónas Björgvin sem var fljótur til að gera grín af þessu sjálfur á samfélagsmiðlum.

„Fólk nærist á einhverju svona, að taka einhverja manneskju fyrir og reyna að vera leiðinleg. Ég hef bara að gaman af þessu. Ég var alls ekki í fýlu. Maður sér oft fólk verða pirrað og þetta var bara ástríða fyrir leiknum," sagði Jónas. Hann segir að það sem var svekkjandi fyrir Þórsara var að missa frá sér stigið í lokin.

„Það var grátlegt og fáránlega pirrandi en hefur svolítið verið okkar saga í sumar," sagði Jónas en er Þórsliðið að fá of mikla gagnrýni?

„Nei, alls ekki. Að fá gagnrýni er bara partur af því að spila í Pepsi-deildinni. Oft er eins og það sé verið að sparka í liggjandi mann en ég tek ekkert eftir því að það sé verið að gagnrýna önnur lið of mikið. Þetta er bara partur af leiknum," segir Jónas.

Þórsliðið er í neðsta sæti Pepsi-deildarinnar sex stigum frá öruggu sæti þegar sjö umferðir eru eftir af mótinu.

„Nú verðum við að gera eins og þegar við höfum verið að ná í þessa þrjá punkta. Við þurfum að þjappa okkur saman og fara út í hvern einasta leik eins og hann sé sá síðasti. Það er nóg af punktum eftir þótt að fólk sé búið að afskrifa okkur. Við verðum þeir síðustu til afskrifa okkur," sagði Jónas en ætlar hann að haga sér öðruvísi þegar hann verður tekinn útaf næst?

„Ég hugsa að ég labbi bara á bekkinn," svaraði Jónas Björgvin hlæjandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×