Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Varnarleikur eins og í sjötta flokki | Myndbönd

KR-ingar unnu fimmta leikinn í röð í öllum keppnum.
KR-ingar unnu fimmta leikinn í röð í öllum keppnum. vísir/stefán
Sautjánda umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu kláraðist í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum nótum.

FH er á toppi deildarinnar eftir sigur í Víkinni, en Stjarnan tapaði stigum á móti Breiðabliki á heimavelli. Þórsarar töpuðu enn einum leiknum og Fram er í vondum málum eftir tap gegn KR sem er ekki búið að segja sitt síðasta í toppbaráttunni.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum sex leikjum umferðarinnar:

KR - Fram

Fylkir - Valur

Víkingur - FH

Fjölnir - Keflavík

Stjarnan - Breiðablik

ÍBV - Þór

Hólmar Örn Rúnarsson reynir fyrirgjöf en Aron Elís Þrándarson til varnar.vísir/getty
Góð umferð fyrir ...

... FH-inga

Þrátt fyrir að lenda undir í Víkinni stóðu FH-ingar uppi með 3-2 sigur og tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir (Toppliðin fjögur eiga öll einn leik til góða). Á meðan FH hafði sigur á nýliðunum tapaði Stjarnan stigum á móti Breiðabliki á heimavelli sem gefur FH smá stuðpúða fyrir lokasprettinn.

... Fylkismenn

Árbæingum líður svo vel í lautinni. Liðið vann þriðja leikinn af fjórum þegar það lagði lánlausa Valsmenn, 2-0, og safnaði alls þrettán stigum af 21 mögulegu í sjö leikja heimaleikjarispu sinni. Lautar-Berti í fullu fjöri og allt í einu er Fylkir hætt að berjast um fall heldur komið í baráttu um Evrópusæti. Skjótt skipast veður í lofti þegar menn vinna fótboltaleiki í jafnri deild.

... Jonathan Glenn, framherja ÍBV

Trínidadinn magnaði skoraði bæði mörk ÍBV í 2-0 sigri á Þór er fyrstur til að komast í tveggja stafa tölu í markaskorun í Pepsi-deildinni. Hann er kominn með tíu mörk og er sá fyrsti sem skorar tíu mörk fyrir 1. september í þrjú ár. Eyjamenn kvöddu líklega falldrauginn og áfram heldur Glenn að skora. Hann var að skora í sjötta heimaleiknum í röð.

Valsmenn eru búnir að gefa Evrópudrauminn upp á bátinn.vísir/valli
Erfið umferð fyrir ...

... Valsmenn

Lærisveinar Magga Gylfa töpuðu þriðja leiknum í röð, en frammistaða þeirra í Árbænum var ekki til útflutnings. Þrátt fyrir að vera aðeins fimm stigum frá Evrópusæti gaf Magnús það út eftir leikinn að draumur þeirra um Evrópu væri dáinn. Markmiði sumarsins ekki náð og þungt yfir Hlíðarendapiltum þessa dagana.

... Orra Frey Hjaltalín, miðvörð Þórs

Verri varnarleik en Orri Freyr sýndi í fyrra marki ÍBV á Hásteinsvelli á sunnudaginn er tæplega hægt að finna. Hörður Magnússon líkti tilburðum hans í Pepsi-mörkunum við tíu ára drengi á Shell-mótinu, en Orri Freyr lét langa spyrnu Abels Dhaira í marki ÍBV fara yfir sig og réð svo ekkert við Jonathan Glenn sem skoraði. Orri alls ekki átt gott tímabil frekar en aðrir varnarmenn Þórs.

... Góðan varnarleik

Orri Freyr var ekkert eini maðurinn sem gerði afdrifarík varnarmistök. Það er ávallt sagt að mörk séu skoruð eftir mistök einhvers, en mikið var um slíkt í umferðinni. Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark fyrir KR dauðafrír í teignum, KR-ingar fengu mark á sig úr aukaspyrnu utan af velli, Ívar Örn Jónsson, leikmaður Víkings, var sofandi í fyrsta marki FH og Aron Elís Þrándarson á sök á fyrirgjöfinni sem skóp annað mark FH. Damir Muminovic gleymdi Veigari Páli Gunnarssyni fyrir aftan sig í Garðabænum sem kostaði jöfnunarmark og svona má lengi telja. Haugur af mistökum hjá varnarmönnum í umferðinni.

Blikar skora og skora en fá alltaf bara eitt stig.vísir/valli
Tölfræðin:

*Eyjamenn eru búnir að ná í 10 stig af 12 mögulegum út úr síðustu fjórum heimaleikjum sínum í Pepsi-deildinni og markatala liðsins í þeim er +6 (9-3).

*ÍBV-liðið er búið að skora í öllum 9 heimaleikjum sínum í Pepsi-deildinni í sumar.

*Þórsliðið hefur aðeins náð í 1 stig af 27 mögulegum í útileikjum sínum í Pepsi-deildinni í sumar (4 prósent stiga í boði).

*Þórsarinn Chukwudi Chijindu er búinn að spila í 513 mínútur í Pepsi-deildinni í sumar án þess að skora.

*Fylkir hefur náð í 7 af 9 stigum í boði síðan að Finnur Ólafsson kom inn í liðið og verið yfir í 164 mínútur í þeim (af 270, 61 prósent).

*Fylkismenn hafa unnið þær 217 mínútur sem Finnur Ólafsson hefur spilað í Pepsi-deildinni í sumar með markatölunni +5 (6-1).

*Valsmenn töpuðu þriðja leik sínum í röð og var það að gerast í annað skiptið í sumar.

*Valsliðið er stigalaust í síðustu þremur leikjum sínum á móti Fram, Stjörnunni og Fylki en náði í 7 stig á móti sömu liðum í fyrri umferðinni.

*Breiðablik varð aðeins fjórða liðið í sögunni í efstu deild til að gera 10 jafntefli á einu tímabili.

*Breiðablik hefur aðeins tapað 2 af fyrstu 11 deildarleikjum sínum undir stjórn Gumma Ben.

*Breiðablik hefur skorað 11 mörk í síðustu fimm leikjum sínum en þau hafa aðeins skilað liðinu 7 stigum.

*Stjarnan varð aðeins þriðja félagið í sögu efstu deildar á Íslandi til að fara taplaust í gegnum 16 fyrstu deildarleiki sína á tímabili.

*Ólafur Karl Finsen hefur skorað 5 af 7 mörkum sínum í Pepsi-deildinni í sumar á síðustu 17 mínútunum í fyrri hálfleik.

*Stjarnan varð fyrsta liðið í sumar til þess að skora 30 mörk í Pepsi-deildinni. Þór var fyrst í 10 mörkin (22. maí) og Stjarnan skoraði sitt 20. mark á undan öllum öðrum (20. júlí).

Það var oft hart tekist á í Víkinni í gær.vísir/stefán
Skemmtilegir punktar úr boltavaktinni:

Guðmundur Marinó Ingvarsson á Víkingsvelli


„Leikskýrslan er komin og Ólafur Þórðarson þjálfari Víkings ákvað að svara styrknum á bekk FH, þar eru m.a. Sam Hewson og Atlarnir, með því að setja Aron Elís Þrándarson á bekkinn. Það er jú gott að geta skipt sterkum leikmönnum inn á.“

Ingvi Þór Sæmundsson á Fjölnisvelli:

„Frans Elvarsson lítur út eins og Sick Boy úr Trainspotting með þetta aflitaða hár.“

Anton Ingi Leifsson á Hásteinsvelli:

„Jæja. Nú fer hver að vera síðastur til að troða inn marki. Ég kom varla hérna til Eyja til að sjá markalaust jafntefli, ég trúi því ekki!“

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Stefán Logi Magnússon, KR - 8

Ólafur Páll Snorrason, FH - 8

Þorri Geir Rúnarsson, Stjörnunni - 8

Elfar Freyr Helgason, Breiðabliki - 8

Henry Monaghan, Víkingi - 3

Páll Olgeir Þorsteinsson, Víkingi - 3

Emil Pálsson, FH - 3

Ellert Hreinsson, Breiðabliki - 3        

Umræðan #pepsi365

Mark umferðarinnar: Atvik umferðarinnar: Markaregn:



Fleiri fréttir

Sjá meira


×