Íslenski boltinn

Alan Lowing framlengir við Víkinga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alan Lowing í bikarleik gegn Fylki fyrr í sumar.
Alan Lowing í bikarleik gegn Fylki fyrr í sumar. vísir/daníel
Alan Lowing, miðvörður Víkings í Pepsi-deild karla í fótbolta, skrifaði undir nýjan samning við Fossvogsfélagið í kvöld.

Lowing framlengdi við Víkinga um tvö ár, en núgildandi samningur hans átti að renna út eftir yfirstandandi tímabil.

Þessi 26 ára gamli miðvörður hefur spilað mjög vel fyrir Víkingsliðið í sumar, en eftir að fá rautt spjald í fyrsta leik gegn Fjölni og taka út eins leiks bann hefur hann spilað alla leiki liðsins í deildinni og verið þess besti varnarmaður.

Víkingar hafa aðeins fengið á sig 20 mörk í Pepsi-deildinni, en það er á pari við tvö af þremur toppliðunum; KR (19) og Stjörnuna (20). Ekkert lið hefur þó fengið á sig færri mörk en FH eða ellefu talsins.

Lowing kom til Íslands um mitt sumar árið 2011 og gekk þá í raðir Fram. Hann spilaði með Frömurum í tvö og hálft ár áður en hann var látinn fara frá Safamýrarliðinu og Víkingar sömdu við hann.

Víkingar mæta Val í gríðarlega mikilvægum leik í Evrópubaráttunni á Víkingsvellinum á sunnudaginn klukkan 17.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×