Innlent

Leggja til að umhverfisráðherra finni leiðir til að minnka notkun plastpoka

Sigurður Ingi Jóhannsson er umhverfis- og auðlindaráðherra. Þingmennirnir vilja fela honum að finna leiðir til að draga úr notkun plastpoka hér á landi.
Sigurður Ingi Jóhannsson er umhverfis- og auðlindaráðherra. Þingmennirnir vilja fela honum að finna leiðir til að draga úr notkun plastpoka hér á landi. Vísir / Stefán
Tíu þingmenn vilja fela Sigurði Inga Jóhannssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra, að finna leiðir til að minnka plastpokanotkun hér á landi. „Það er alkunna að plastpokar og aðrar plastumbúðir utan um matvæli og efnavörur hafa skaðleg áhrif á umhverfið,“ segja þingmennirnir um tillöguna.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni þar sem þetta er lagt til segja þeir að mikil vakning hafi orðið í samfélaginu um hverfisvernd og endurnýtingu. Þeir telja að grípa þurfi til aðgerða hvað notkun plastpoka varðar.

Þingmennirnir segja að hver plastpoki sem fjúki út í veður og vind geti orðið upphafið að langri og afdrifaríkri atburðarás sem ekki hefði farið af stað ef meiri áhersla hefði verið lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir í upphafi.

Oddný G. Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en auk hennar eru flutningsmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Katrín Júlíusdóttir, Guðbjartur Hannesson, Össur Skarphéðinsson, Bjarkey Gunnarsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×