Körfubolti

Þjálfari LIU: Ég býst við miklu af Martin og Elvari

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jack Perri segir Elvari Má Friðrikssyni til á æfingu.
Jack Perri segir Elvari Má Friðrikssyni til á æfingu. mynd/skjáskot
Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson, landsliðsmenn í körfubolta, hefja leik í efstu deild háskólaboltans með LIU Brooklyn í nótt þegar liðið mætir St. Johns.

Jack Perri, þjálfari liðsins, fer fögrum orðum um Íslendingana tvo í viðtali á heimasíðu skólans, en þeim er ætlað stórt hlutverk í liðinu.

„Þeir eru svolítið öðruvísi því þeir eru búnir að spila atvinnumannakörfubolta á Íslandi. Því eru þeir kannski tilbúnari en hinir,“ segir Perri.

„Þetta eru yndislegir strákar sem lítið þarf að hafa fyrir og þeir leggja sig alla fram. Þeir hlusta á það sem þeim er sagt og eru báðir mjög hæfileikaríkir.“

Bæði Elvar og Martin, sem báðir eru fæddir 1994, fóru á kostum á síðustu leiktíð í Dominos-deildinni.

Elvar Már skoraði að meðaltali 20,8 stig í leik fyrir Njarðvík, tók 4,3 fráköst og gaf 7,3 stoðsendingar í 30 leikjum á meðan Martin leiddi KR til Íslandsmeistaratitils með 18,8 stigum að meðaltali í leik auk þess að gefa 4,5 stoðsendingar og taka 3,4 fráköst.

„Ég býst við miklu af þeim báðum við upphaf leiktíðar,“ segir Jack Perri, þjálfari LIU Brooklyn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×