Körfubolti

Kristófer Acox með fyrstu íslensku tvennu ársins í háskólaboltanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristófer Acox fór á kostum í nótt.
Kristófer Acox fór á kostum í nótt. vísir/
Það voru ekki bara Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson sem voru á ferðinni í efstu deild bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Kristófer Acox, háloftafuglinn úr vesturbænum, var stigahæstur sinna manna í Furman Paladins sem rúllaði yfir Appalachian State-háskólann, 84-65, í nótt.

Kristófer náði fyrstu íslensku tvennu vetrarins, en hann skoraði 14 stig og tók 10 fráköst. Kristófer spilaði mest í sínu liði eða 28 mínútur, hitti úr fimm af sex skotum úr teignum og fjórum af sex vítaskotum.

Til viðbótar við það stal hann svo einum bolta og gaf eina stoðsendingu. Heldur betur flottur leikur hjá Kristófer, en hans menn eru nú búnir að vinna einn leik og tapa einum við upphaf nýs tímabils.

Keflvíkingurinn Gunnar Ólafsson og félagar hans í St. Francis töpuðu öðrum leiknum í röð þegar þeir lutu í gras fyrir Army-háskólanum, 74-71, á heimavelli.

Gunnar kom inn af bekknum og spilaði tólf mínútur og gaf eina stoðsendingu en tók ekkert skot.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×