Skoðun

Húsnæðisvísitala

Már Wolfgang Mixa skrifar
Stefnt er að því af hálfu stjórnvalda að einungis verði hægt að taka óverðtryggð lán til fasteignakaupa. Þó taka um tveir þriðjuhlutar íslenskra heimila verðtryggð lán í dag, sem bera lægri raunvexti en óverðtryggð lán. Leigugjald peninga til fasteignakaupa yrði því dýrara.

Það eru margir ókostir við verðtryggð lán. Meðal þeirra er að verðtryggð lán miða við almennt verðlag þó svo að húsnæðislán séu til þess eins að lána fyrir kaupum á fasteign. Þetta skapaði misvægi árin 2002-2007 þegar fasteignaverð rúmlega tvöfaldaðist en verðbólga jókst rétt rúmlega fjórðung á sama tíma. Þegar sú þróun gekk til baka í framhaldi af hruninu 2008 sátu nýlegir kaupendur uppi með fasteign sem féll í virði á meðan höfuðstóll lána, tengdur almennu verðlagi, rauk upp. Slík verðbólguskot þurfa lántakar að taka einir á sig í verðtryggðu umhverfi.

Óverðtryggð lán eru aftur á móti engin lausn. Auk hærri raunvaxta sveiflast vaxtastig slíkra lána almennt í takti við verðlag, ekki fasteignaverð. Það vaxtastig náði til að mynda hæstu hæðum í kjölfar hrunsins, sem hefði verið versta tímasetning fyrir íslensk heimili hefðu húsnæðislán verið almennt óverðtryggð.

Lán tengd húsnæðisvísitölu, sem tengist vísitölu íbúðaverðs samkvæmt Þjóðskrá Íslands, er einföld lausn sem leysir ofangreind atriði. Höfuðstóll og greiðslubyrði slíkra lána hefðu snarhækkað árin 2002-2007. Umræða um slíka þróun hefði án efa dregið úr þeirri fasteignabólu. Aftur á móti hefði höfuðstóll lána og því greiðslubyrðin lækkað töluvert mikið árin 2008–2010, þegar mest á reyndi. Lánveitendur taka auk þess einnig á sig áhættuna ef veð af fasteignum lækkar en á sama tíma ættu raunvextir að vera jafnvel lægri en raunvextir verðtryggðra lána. Góð hagstjórn felst þá í því að viðhalda stöðugu fasteignaverði með gegnsæjum hætti. Húsnæðislánavísitalan er einnig ónæmari fyrir gengisbreytingum og upptaka hennar gæti því flýtt fyrir afnámi gjaldeyrishafta og jafnvel beintengingu við aðra gjaldmiðla.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×