Fótbolti

Gæti Cristiano Ronaldo fengið tólf leikja bann fyrir þetta?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær hér rauða spjaldið.
Cristiano Ronaldo fær hér rauða spjaldið. Vísir/Getty
Það kemur í ljós á morgun hvort að Cristiano Ronaldo, besti fótboltamaður heims á síðasta ári, sé á leiðinni í langt bann en hann missti stjórn á sér í leik með Real Madrid um helgina.

Cristiano Ronaldo fékk rauða spjaldið níu mínútum fyrir leikslok í 2-1 útisigri Real Madrid á Córdoba. Staðan var þá 1-1 en Gareth Bale skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á 89. mínútu.

Aganefnd spænska knattspyrnusambandsins hittist á morgun og fer yfir atvikið. Barcelona-blaðið Mundo Deportivo skrifar um það í morgun að Cristiano Ronaldo gæti hugsanlega fengið tólf leikja bann.

Cristiano Ronaldo baðst afsökunar á framferði sínu á twitter-síðu sinni eftir leikinn og Barcelona-leikmaðurinn Neymar er á því að Ronaldo eigi að fara í langt bann.

„Það er oft verið að reyna að fá okkur sóknarmennina til að missa stjórn á skapi okkar. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum falla í þá gildru en það gerist hjá Zinedine Zidane og það gerðist hjá mér. Þegar slíkt gerist þá verða menn að fá sína refsingu," sagði Neymar.

Cristiano Ronaldo fékk rauð spjaldið fyrir að sparka niður andstæðing en dómarinn skrifað ekkert um það í skýrslu sína þegar hann sló til annars leikmanns í framhaldinu.

Hvort að það sé meira óskhyggja en annað hjá blaðamönnum Mundo Deportivo þá er almennt talið líklegast að Ronaldo verði "bara" sendur í tveggja leikja bann.

Hér fyrir neðan má sjá brot Cristiano Ronaldo um helgina og nú er bara stóra spurning hvort að þetta réttlæti meira en tveggja leikja bann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×