ÍA hefur byrjað frábærlega í Lengjubikarnum í fótbolta og það var engin breyting þar í dag. Skagamenn tóku þá á móti Grindavík í Akraneshöllinni og fóru með sigur af hólmi, 3-2.
Arnar Már Guðjónsson kom ÍA yfir á 8. mínútu með sínu fjórða marki í Lengjubikarnum.
Björn Berg Bryde jafnaði metin fyrir hálfleik en á 7. mínútu seinni hálfleiks kom Garðar Gunnlaugsson Skagamönnum yfir á ný, en hann kom inn á sem varamaður í hálfleik.
Óli Baldur Bjarnason jafnaði leikinn í 2-2 með marki úr vítaspyrnu á 67. mínútu en níu mínútur seinna skoraði Darren Lough sigurmark ÍA.
Arsenij Buinickij lék sinn fyrsta leik fyrir ÍA í dag en hann kom til liðsins frá KA í síðasta mánuði.
Skagamenn eru á toppi riðils 3 með fullt hús stiga (12 stig), fimm stigum á undan Keflavík sem er í 2. sæti.
Í riðli 1 bar HK sigurorð af Víkingi Ólafsvík í Kórnum. Aron Þórður Albertsson skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu á 11. mínútu.
Lærisveinar Þorvaldar Örlygssonar eru í 2. sæti riðils 1 með níu stig eftir þrjá leiki. Fylkir situr í toppsætinu en hefur leikið einum leik meira en HK sem er líklegt til afreka í 1. deildinni í sumar.
